22.07.2013 20:15
Stríðsmynd tekin upp á Eyrarbakka

Ef öll tilskilin leyfi fást verður Eyrarbakki sögusvið kvikmyndar
sem gerist í síðari heimstyrjöldinni. Atburðirnir eiga að gerast í Noregi en
hagkvæmara þykir að taka upp meginefni myndarinnar hér á landi. Það er Sagafilm
sem stendur að undirbúningi fyrirtækisins með norskum kvikmyndagerðarmönnum sem munu reisa hér allmikið
kvikmyndasvið stríðsáranna, og m.a. mun alvöru skriðdreki leika stórt hlutverk
á Bakkanum. Áætlað er að tökur muni hefjast í síðari hluta ágúst og standa fram
í september. Þess er skemst að minnast að fyrir ári var tekin hér upp að stórum
hluta sænsk kvikmynd, en fyrsta kvikmyndaskotið þar sem Eyrarbakki kom við sögu
sem sviðsmynd var í íslensku kvikmyndinni Brekkukotsannál á 7. áratugnum.
Þorpið og umhverfi þess þykir búa yfir eftirsóknarverðu og jafnvel dularfullu myndrænu
sviði, svo hver veit nema "Hollywood" norðursins leynist hér.
17.07.2013 23:10
Eyrarbakki og náttúran

04.07.2013 21:06
Bardús á Bakkanum



22.06.2013 23:55
15.Jónsmessuhátiðin

23.05.2013 20:52
Skýrsla um björgun við Stokkseyri
"Sunnudaginn 8. april 1923 var mb. Svanur frá Stokkseyri i fiskiróðri og flaggaði nauðsflaggi; sást það úr landi, var þá nálægt hádegi, og allir aðrir komnir i land er á sjó fóru um morguninn. Eftir nokkurn tíma varð Þórarinn Guðmundsson formaður á "mb.Frið" til búinn Svan til hjálpar, en hann krafðist þess að annar bátur kæmi með sér til hjálpar; fór ég undirritaður (Guðm. Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni) þá með honum á mb. Baldur. Náðum við fljótt í Svan; hafði vél hans stansað og drógum við hann inn að Stokkseyrarsundi, en lengra var eigi mögulegt að koma tveim bátum við til að draga Svan. Vindur var snarpur á suðaustan og allmikið brim. Slepti nú Svanur dráttartaug Baldurs, en Friður bjóst til að draga Svan inn sundið, en ég til að bíða fyrir utan brimgarðinn á meðan. Þá er Friður er kominn með Svan nálægt hálfa leið inn sundið slitnar dráttartaugin milli bátanna. Friður gat ómögulega snúið við vegna þrengsla,rak þvi Svanur hjálparlaus fyrir straum og vindi þvert af leið, vestur í brimgarðinn; gáfu þá skipverjar af Svan neyðarmerki; brá ég þá strax við og fór með fylsta hraða af stað, en þar ég var staddur nokkuð út á þegar Svanur slitnaði aftan úr Frið, hafði Svan rekið all-langt af leið, og var kominn svo langt vestur í brimgarðinn, að ég taldi hina mestu hættu að hálgast hann; þó réði ég af að reyna það, vék af leiðinni, og þrátt fyrir að brotsjóir féllu bæði dýpra og grynnra, tókst mér að komast svo nærri Svan, að auðið varð að kasta til hans dráttartaug, og síðan að draga hann inn á rétta leið til lands. Það mátti sannarlega heldur ekki seinna vera að i Svan næðist, þar um geta borið bæði skipverjar beggja bátanna, og alkunnir formenn og aðrir, sem úr landi voru áhorfendur. En guði sé lof að mér og skipverjum mínum tókst að koma Svan og skipshöfn hans heilum á húfi til lands, jafn illa og áhorfðist". Að þessi skýrsla sé sannleikanum samkvæm er ég fús til að staðfesta hvenær sem þurfa þykir.
Stokkseyri 10. mars 1923.
Guðmundur Karl Guðmundsson.
Ægir 1908
09.05.2013 21:43
Sú var tíðin, 1927
Upp voru runnir hallæristímar fyrir Eyrbekkinga og
Stokkseyringa. Stórverslunin var í kalda koli á báðum stöðum og upp leyst.
Verslunarhús Stokkseyringa brunnin til ösku. Burðarás útgerðarinnar,
sparisjóðurinn hruninn. Ótíð hamlaði róðrum stórum hluta vertíðar, svo ágóðinn
var lítill sem enginn. Landbúnaður og garyrkja var þá eina bjargræðið um sinn.
Kreppa ein blasti hinsvegar við með alla sína hnignun, og til að bæta grá ofan
á svart, henti hörmulegt sjóslys og átta sjómenn féllu í valinn. Efiðleikar
urðu með rekstur rafstöðvarinnar, og stefndi í óefni. Sitthvað ávannst í
framfaramálum, þrátt fyrir allt: Símasamband komst á milli Eyrarbakka og
Selvogs, sjómönnum héðan til öryggis er sóttu vestur á "Forir". Kvenfélagið
fékk því áorkað að símasamband fékst að næturlagi við Tryggvaskála, svo unt
yrði að kalla lækni upp til sveita, ef mikið lá við. Svo einhverstaðar í höfuðstaðnum skaut upp þeirri
hugmynd að tómri sjúkrahúsbyggingunni okkar mætti breyta í betrunarhús og
letigarð fyrir vandræðafólk úr Reykjavík. Kom þá dómsmálaráðherra hingað til að
kanna aðstæður. Fleiri hugmyndir komust á kreik, t.d. að hefja þangbrennslu í
stórum stíl. Kosið var til Alþingis og gengu yfir 300 mans til kjörklefans hér.
Íbúar voru þá 701 og hafði fækkað um 53 frá fyrra ári. Á undangengnum fjórum
árum höfðu íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri fækkað um 150 á hvorum stað. Eyrbekkingarnir
fóru til Reykjavíkur, en Stokkseyringarnir til Vestmannaeyja. Hin svokallaða "borgarastétt"
var nú að mestu horfin.
Verslun: Bændur hér í nærsveitum gerðu
núorðið stórinnkaupin í Reykjavík, enda hægara um vik á bílaöldinni.
Austanbændur fengu skip að Hallgeirsey og víðar í austursýslum. Það leiddi til
þess að verslunin á Eyrarbakka varð í kalda koli. Fyrir stærstu verslun
suðurlands, "Heklu" var ekki annað að gera en að reyna að sitja fyrir nærsveitarbændum
og bregða fyrir þá fæti, með því að flytja verslunina að þjóðbrautinni eða
deyja ella. Því tók Guðmundur Kaupfélagsstjóri það ráð að flytja verslunina á
Selfoss, undir merkjum Kf. Höfn, en kaupfélagið (Samvinnufélagið) Hekla var
leyst upp. [Hús öll voru seld eða leigð og vörubirgðir, vefnaðarvörur seldar á
útsölu í Reykjavík.] Þá var Andrés Jónsson verslunarmaður hættur með búð sína
hér og fluttur í höfuðstaðinn. Samt sem áður voru ekki allir verslunarmenn hér
við ströndina af baki dottnir, þó bændaverslunin væri liðin tíð. Otto
Guðjónsson klæðskeri kom sér fyrir í Skjaldbreið, húsi Guðmundar og saumaði föt
á sunnlendinga. Ólabúð, verslun Ólafs Helgasonar átti sína föstu viðskiptamenn
á austurbakkanum, auk þess sem þar var rekin leigubifreiðaþjónusta. Ágæt
byggingavöruverslun var í timburverslun Sigurjóns P Jónssonar. Guðlaugur Pálsson
átti sína föstu viðskiptamenn á vesturbakkanum. Aðrir höndlarar voru líka enn á
róli þó illa horfði með framtíðina. Á
Stokkseyri hélt Ásgeir Eiríksson o.fl. sínu striki, en verslun þar átti í sömu
vök að verjast. Bakarí var nú eitt hér eftir í brauðgerðarhúsinu, er keypt
hafði Lars Lauritz Andersen bakari af Kf. Heklu. Hafði hann fyrrum verið bakari
hjá Lefolii og Einarshafnarverslun. Hvað sem öllu leið þá var bændaversluninni á
Eyrarbakka með öllu lokið, en hún hófst árið 1578 þegar danir settu hér upp
selstöðuverslun.
[Johan Chr. Sunckenberg, keypti Eyrarbakkaverslun og jarðirnar
Einarshöfn og Skúmsstaði 25. júlí 1795 af hinni konunglegu íslenzku- og finnmersku-verzlunarnefnd,
fyrir 319 rd. 85 sk. Verzlunarstjóri Sunckenbergs var þá Niels Lambertsen.
Þegar Sunckenberg dó, gerðist Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka og keypti
jarðirnar af búi Sunckenbergs, 16. marz 1807, fyrir sama verð. Verslunin kemst í eigu Lefolii árið 1868]
Skipaferðir: "Bro" kom hingað til Eyrarbakka og
Stokkseyrar á vegum Eimskipafélagsins með vörur að utan. Þá kom norska
kolaskipið "Aglo" en þegar það var að leggja af stað héðan þann 13. júlí til
Grindavíkur að sækja fiskúrgang, bilaði vél þess og skipið strandaði, og gekk
kjölur þess undan, en veður var stilt og brimlaust. Skipið náðist út aftur 16.
ágúst, eftir að viðgerð á því hafði farið fram. "Aglo" var seglskip með hjálparvél og var um
250 tonn. Gullfoss kom hér við tvö skipti frá útlöndum. Lefolii eldri, gerði
skipaleguna
[Nokkuð örugg skipalega var á Eyrarbakka frá 1868 sem J.R.B. Lefolii lét útbúa með öflugum
járnhlekkjafestingum, þvert um lónin, sem skipin gátu svinglað við og snúist
sem vindhani. Áður voru skipin "svínbundin" við skerjafestur, og gat komið
fyrir að skip slitu sig frá. Bryggju lét hann byggja, með sporbraut heim að vöruhúsinu. Var ekið þar
nokkrum þungum hlössum í senn, og heilum förmum, á brautarvögnum, áratugum
saman, meðan kolin voru borin á bakinu í Reykjavík.]
Slys: Snemma dags 5. apríl fóru allir
bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín.
En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um öll netin, og lögðu því til
lands aftur. Þá voru tvo
flögg dregin á stengur í landi til aðvörunar fyrir sjómenn héðan um að leita
sem skjótast til lands, því sjór var tekinn að brima [Þrjú flögg táknuðu ófær
sund]. Klukkan að ganga tvö e.h. voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur.
Einn þeirra var "Framtiðin". [Sæfari 1] Kom hún um kl. 1:30 upp að brimgarðinum og sætti lægi [beið nokkra
stund við Bússusund]. Þá var kominn hornriðabrim [ afar háar kviköldur og
hvítfyssandi fallsjóir, bæði af hafsjó og stormöldu]. Báturinn lagði inn við hentugt lag og er hann var
kominn nokkuð inn á sundið [við "Brynka"2] skall yfir hann svo hár
og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk
á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn, þeir hétu: Guðfinnur Þórarinsson, formaður,
kvæntur, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, (rennismiðs Jónssonar) Leifseyri,
kvæntur, 6 barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgvin (Smáskamtalæknis
Ásgrímssonar) giftur, átti tvö börn. Sigurður Þórarinsson, (sjómanns Jónssonar)
Vegamótum, ógiftur. Kristinn Axel Sigurðsson,(Sigmundssonar) Túni, ógiftur, hann
var 20 ára. Jónas
Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson,
Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, (Fæddur 1904, Skósmiðs Guðbranssonar)
Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þessir menn voru af Eyrarbakka, alvanir
sjómennsku og einvala lið3.
[1. Guðfinnur hafði þá
nýverið keypt hlut Kristins Vigfússonar í bátnum "Framtíðin" með mági sínum
Sigurjóni Jónssyni fiskimatsmanni og
nefndi hann "Sæfara" eftir eldri báti hans sem gjörónýtist í vonsku veðri á
síðustu vertíð.]
[2. Utarlega á sundinu
er boði, sem "Brynki" nefnist. Afar sterkur vestur-straumur (í vesturátt) er
í sundinu og ræður útfallið og fráfallið úr Ölfusá, miklu, hvað strauminn
snertir, svo og vindurinn, sem var afskaplega harður af austan þennan dag. Þegar
lagt er inn á sundið, þarf að gæta þess, að vera svo vestarlega "í
sundkjaftinum", sem mögulegt er og sneiðskera það síðan alla leið inn úr,
hálf-flötu skipi fyrir sjóunum og er skerið "Brynki" þá einna hættulegast,
enda varð sú raunin á, þegar báturinn fór þar framhjá tekur brot sig upp í
skyndi, án þess þó að falla, en skellur svo hart á hlið bátsins að hann veltur um
og sekkur ofan í brimgarðinn. Er það talið orsökin til þess að svona fór, að
boðinn var hár og svo þunnur og sjólítill, að báturinn hafði ekki nægan sjó til
stuðnings á hléborða.]
[3 Verkamannafélagsið Báran á Eyrarbakka fékk Rikarð Jónsson til að gera skjöld
til minningar um sjómennina, er fórust mað Sæfara. Efnið í skildinum; er eik.
Þar halda tvær hafmeyjar á hörpudiski, en utan um hann slöngva þær þarablöðum. Í
hörpudískinum er silfurplata, og eru þar á grafin nöfn hinna föllnu vikinga.
Skjöldurinn er alveg einstakur í sinni röð. Verkamannafélagið Báran gaf
kirkjunni síðan skjöldinn og er hann þar enn í dag. Meira en 20 íslenskir
sjómenn drukknuðu á þessu sama ári]
Svo orti Maríus Ólafsson um slys þetta:
Harmafregn minn huga grípur.
Hetjur lít með víkingsbrag
inn á sundið báti beita;
brimið virðist gefa lag.
Horfi eg á hafsins ógnir,
háan rísa öldufald.
Sé ég Ægi æðisgenginn
yfirstiga mannlegt vald.
Samfélagið: Á Eyrarbakka að tilhlutun
Alþýðusambands Íslands var stofnað
fulltrúaráð meðal jafnaðarmanna í Árnessýslu. Verklýðsfélögin "Báran" á
Eyrarbakka og "Bjarmi" á Stokkseyri voru þáttíakendur í fulltrúaráðinu, og
áttu sæti í því stjórnir beggja félaganna. Í stjórn voru kosnir: Ingimar
Jónsson, prestur að Mosfelli í Grímsnesi, Bjarni Eggertsson búfræðingur,
Eyrarbakka, Guðmundur Einarsson verkamaður, Stokkseyri, Bergsteinn Sveinsson
verkamaður, Eyrarbakka, og Nikulás Bjarnason verkamaður, Stokkseyri. Ungur
skáti Eiríkur J. Eiríksson, 16. ára tók að þýða skátabók "Ég lofa" af dönsku
eftir "Wilhelm Bjerregard" og var góður rómur gerður að.
Samgöngur: Bifreiðastöð Eyrarbakka sem Ólafur
Helgason átti, var nú gerð út frá
Lækjartorgi í Reykjavík. B.S.R og Steindór veittu stöðinni hörku samkeppni.
Sjávarútvegur: Vel fiskaðist þegar gaf á sjó, en
ótíð mikil hamlaði veiðum oft á tíðum. Þegar upp var staðið gaf vertíðin lítið
sem ekkert í aðra hönd. Haustvertíðin var stopul, en ýsuafli góður þegar gæftir
voru, 3 bátar réru. Nokkuð betur gekk á Stokkseyri, en þaðan réru 10 bátar.
Landbúnaður: Búnaðarfélagið hér lagði inn umsókn
um að fá að kaupa "þúfubana" til að slétta tún.
Heilsufar: Kighósti kom upp á Eyrarbakka og
Stokkseyri, en væg nema börnum nokkrum sem bólusett höfðu verið. Heilsufar
annars með ágætum.
Látnir: Margrét Jónsdóttir, bústýra
Einarshöfn (89?), Sigríður
Jónsdóttir, Litlu-Háeyri
(86), Guðbjörg
Árnadóttir, Torfabæ (84), Sólveig Magnúsdóttir, Kaldbak (78), Ingibjörg Jónsdóttir, Einarshöfn (77), Kristbjörg
Einarsdóttir, Skúmstöðum (77), Guðbjörg Gunnarsdóttir frá Litlu-Háeyri (64) [bjó
í Hafnarfirði], Jónas
Einarsson, sjómaður Garðhúsum (60) [fórst með "Sæfara"], Guðfinnur Þórarinsson, formaður Eyri (45)
[fórst með "Sæfara"], Sigurður
Þórarinsson Vegamótum (40) [fórst með "Sæfara"] Gísli Björnsson, þurrabúðarmaður Litlu-Háeyri (39)
[fórst með "Sæfara"], Páll Guðmundsson, sjómaður Leifseyri (31)[fórst með "Sæfara"],
Ingimar Jónsson, sjómaður Sandvík (23)[fórst með "Sæfara"], Kristinn Sigurðsson, sjómaður Túni (19)[fórst
með "Sæfara"], Gestur Jónsson, Nýjabæ (17), Vilhjálmur Kristinn Þorbjörnsson,
Blómsturvöllum (1).
[Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Sigurðsson fyrrum sparisjóðsstjóri
á Eyrarbakka. Jakob
Bjarnason (f.1874 í Sviðugörðum Gaulverjabæ) undirforingi í lögreglu Seattle U.S.A. Hann var maður mikill í vexti og bar
höfuð og herðar yfir annað fólk. Bar hann viðurnefnið "Big Jake". Jakop Andreas Lefolii kaupmaður, í danmörku. Ásgrímur Adólfsson í Washington Island, Wis., U. S. A.
en hann var frá Stokkseyri, og kona hans frá Eyrarbakka.]
Sveitin og Sýslan: Mjólkurbúi fyrir Sunnlendinga var fundinn
staður í "Flóanum" austan við Selfoss.
Tíðin: Í febrúar komst hitinn í 8°C og mesta frost -11°C. Í
mars var ekkert frost á Bakkanum, og hæst fór hitinn í 10°C. Apríl var
úrkomusamur, 30% yfir meðallagi. Mánuðurinn var frostlaus og mestur hiti 9,5°C.
Í maí steig hitinn í 18,5 stig, en frost mældist mest -4,8°C. Heldur bætti í
hitabylgjuna er kom fram í júní, mældist þá 21.7°C og í júlí 25,8 stig og 20
stig í ágúst. Enn var hlýtt í byrjun september og bar hæst 18,9°C, en svo kom
frostið er á leið. Í oktober var mest frost -6,3 stig.
Heimild: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg, Lögrétta,
Heimskringla,Tíminn. gardur.is
Tímarit: Samvinnan, Veðráttan, Ægir, Verkamaðurinn.
30.04.2013 22:59
Sú var tíðin, 1926
Árið 1926 var síður en svo auðvelt ár fyrir íbúa
strandarinnar. Taugaveiki, sjóhrakningar í tvígang, stórbruni á Stokkseyri,
samdráttur í verslun og fólksfækkun. Þorpsbúar létu þó ekki deigan síga. Sjógarðar
sem féllu í flóði fyrra árs voru nú endurnýjaðir að fullu. Skólpræsi voru hér
ekki komin en almennt voru kamrar við hvert hús. Brunnvatnið var enn við líði, en
brunnarnir ótryggir margir hverjir. Sjúkrahúsbyggingin hafði nú staðið auð í
ára raðir vegna fjárskorts og allar rúður í því brotnar. Samþykkti sýslan nú að
veita fé til að fullgera "Eyrarspítala". [ Í desember var húsnæði spítalans, (Litla-Hraun)
auglýst á uppboði hér á Eyrarbakka] Útvarpstæki voru mjög farin að riðja sér
til rúms um þessar mundir. Járnbrautarhugleiðingar voru ekki alveg horfnar úr
umræðunni, þó ekkert hafði áunnist í þá átt í allmörg ár og enn var rætt um byggingu
hafnar í Þorlákshöfn með sama árangri. Deilt var hart um hvar byggja ætti
Héraðsskóla sunnlendinga, en valið stóð um Reykjafoss í Ölfusi, eða að
Laugarvatni, var þá samþykkt að leysa málið með undirskriftasöfnun um hvor
staðurinn yrði fyrir valinu. Framræsla á mýrinni var talsvert í umræðunni og leiðir til fjármögnunar á því stórvirki. Eyrbekkingar og aðrir landsmenn gengu að
kjörborðinu í tvígang og var kjörsókn þannig: Á Eyrarbakka kusu 170 af 270 á kjörskrá,
á Stokkseyri 80 af 240, í Sandvíkurhreppi 28 kjósendur. Annars var kjörsókn
dræm í sýslunni. Í síðari kosningunum sem voru til Alþingis kusu 130 á Eyrarbakka.
Bátabryggjan var fullgerð, steinsteypt og að nokkru leyti með járnbindingum. Hún
var 70 m löng, 6 m breið og náði hún fram að stórstraumsfjöru. Bryggjan kostaði
öll um 33.000 kr. Í flestum minni verslunarstöðum landsins var fólksfjölgun, en
á öðrum fækkaði fólki stöðugt til nálægra kaupstaða. Eyrarbakki og Stokkseyri
fóru ekki varhluta af nálægð sinni við Reykjavík, með batnandi samgöngum. Á
Eyrarbakka bjuggu nú 754 að jafnaði á árinu 1926 og hafði fækkað um 54 frá
fyrra ári. Margt kemur til, bílaöldin var runnin upp, togaraútgerðir og
fiskvinnsla í stæstu kaupstöðum við Faxaflóa, tækniframfarir og vélvæðing
ýmiskonar, atvinnumöguleikar, menta og heilbrigðisstofnanir á sömu stöðum, en á
meðan að Árnessýsla fékk litlu áorkað í sömu átt og enn flest sem áður var í
búskaparháttum og sjósókn. Hafnleysið hrjáði þegar millilandaskipin stækkuðu og
vélvæddust og þurftu meiri þjónustu við land en áður.
Verslun: Þrátt fyrir töluverða fólksfækkun undangengin
ár voru verslanir hér enn margar, svo sem Kf. Hekla sem barðist í bökkum, nú
sem aldrei fyr1, Verslun Andrésar Jónssonar, Timburverslun Sigurjóns
P Jónssonar, Verslun Guðlaugs Pálssonar, Verslun Ólafs Helgasonar. Hinsvegar
dró Jóhann V Daníelsson verslun sína saman á þessu ári, með því að selja út
allann vörulager. Flutti hann síðan til Reykjavíkur. Steinolíuútibúið hóf að
selja bensín um þessar mundir.
1.[ Kaupfélagið Hekla
hafði nú starfað á Eyrarbakka í 22 ár og var í upphafi lítið og fámennt félag
sem óx fljótt fiskur um hrygg og efldist mjög fram undir fyrra stríð. Félagið
keypti Lefolii verslun árið 1919 og landeignir þess. Gekk það svo í
Samvinnufélögin 1922. Um nokkurt árabil hafði reksturinn verið í járnum og
ólukkan elti. Félagið varð fyrir margvíslegu tjóni og þurfti að sæta afarkostum
á aðfluttningsgjöldum. Verðhækkun, gengistap, hávextir og aukin samkeppni
sökktu því í skuldafen. Til að bæta gráu ofan á svart, þá fórst kolaskip er til
þess átti að koma og oft þurfti að afskrifa ýmsar vörur sem skemdust í
flutningi. Eignir félagsins utan verslunarrekstrar voru helst: Jarðir tvær
(Einarshöfn og Skúmsst.), með hafnrétti, skipt í leigulönd, nálægt 50
þurrabýla. Íbúðarhús tvö, peningshús, hlaða, skemmur nokkrar, bökunarhús,
íshús, sölubúðir tvær stórar og fjögur vöruhús mjög stór. Fjöldi manna starfaði
hjá félaginu. Mikil kreppa blasti því við Eyrbekkingum nú þegar Sparisjóðurinn
var fallinn og hugsanlegs gjaldþrots Kf. Heklu]
Stórbruni á Stokkseyri:
Aðfaranótt 10.
desember 1926 brunnu Ingólfshúsin á Stokkseyri til kaldra kola. Ingólfshúsin
samanstóðu af 7 verslunar og pakkhúsum. Þar á meðal íshús fullt af kjöti og
fiski. Íbúðarhús tvö voru einig á torfunni. Margir urðu þar fyrir geysilegu
tjóni, svo sem Ásgeir kaupmaður Eiríksson sem tapaði vörum sínum í eldinn þrátt
fyrir að þeim hafi verið bjargað útfyrir. Magnús Gunnarsson, en vörum hans var
rutt út og tvístrað hingað og þangað, út í kirkjugarð og um allar trissur þó
ekki brynni hjá honum. Sigurður
Heiðdal og Böðvar Tómasson, Jón Sturlaugsson og Jón Jónsson, töpuðu ýmist
veiðarfærum báta sinna, útbúnaði öllum og beitu. Jón Jónasson hreppstjóri misti
nær fulla hlöðu af heyi. Hafði sparisjóður [Árnessýslu] Eyrarbakka þá aðeins
nokkrum dögum fyr, selt eða leigt eitt húsið, en tveir ungir menn hugðust hefja
þar verslun. [Ingólfsfélagið varð gjaldþrota um 1924]. Þegar eldsins var vart
var þeyttur brunalúður. Stokkseyringar og Slökkviliðið á Eyrarbakka, sem og
þorpsbúar, allir sem vettlingi gátu valdið, þustu á vettvang með öll
slökkviáhöld sem fyrir fundust í þorpunum ásamt dælum slökkviliðsins, en þrátt
fyrir það varð ekkert við ráðið. Svo magnaður var eldurinn í verslunarhúsunum
að nálægir símastaurar fuðruðu upp sem eldspítur. Sex önnur nálæg íbúðarhús
tókst að verja, en í einu þeirra var símstöð Stokkseyrar. Þegar eldtungurnar
náðu sem hæst, var talið glójart og lesljóst allt undir Ingólfsfjall að sögn.
[Slökkviliðsstjóri var Einar Jónsson. Húsin sem brunnu voru: Ingólfshúsið,
í fyrstu bygt af Grími Gíslasyni
í Óseyrarnesi. Íshús Jóns
Sturlaugssonar. Zöllnershús, afar stórt og vandað pakkhús reist af Copland og
Berrie um 1900. Varmidalur, verslunarbúð Ásgeirs Eiríkssonar. Heyhlaða og
nokkrir geimsluskúrar undir veiðarfæri. Tjón Stokkseyringa var gríðarlegt í
öllu tilliti. Húseignirnar voru auglýstar til sölu í nóvember 1926, í heilu
lagi eða hver fyrir sig, með lóðarétti eða til niðurrifs.]
Skipakomur: Lagarfoss kom hér við miðsumars og
Gullfoss losaði í Þorlákshöfn vörur til Eyrarbakka, ásamt farþegum nokkrum, en
aðrar skipa og bátaferðir er ókunnugt um. Vélbátaferðir voru þó nokkuð tíðar frá
Eyrarbakka og Stokkseyri til Vestmannaeyja, sem og til Reykjavíkur.
Sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði hægt hjá
mótorbátum, en ágætur ýsuafli á róðrabátum. Í mars og apríl aflaðist með ágætum,
þá er gaf á sjó. Þeir sem sóttu vestur á Selvogsbanka náðu oft góðum afla. Um
haustið veiddist mikið af síld í reknet, og var mikið af því saltað í tunnur en
einnig ísfryst í beitu. Hámeri spillti þó veiðinni mikið og stórfiskur var um
allann sjó utan skerja. Um miðjan september voru kominn um 40 tonn af síld á
land. Sæmilegur fiskafli var á haustvertíð.
[300 síldartunnur voru fluttar út héðan]
Sjóhrakningar: Þann 13. apríl 1926 reru 17 bátar af
Eyrarbakka og Stokkseyri og fóru flestir vestur undir Selvog (2 ½ klst sigling
frá Stk). Þegar á daginn leið gerði landsynningsrok og brim svo mikið, að
aðeins 8 bátarnir gátu lent heima, en hinir urðu að láta fyrirberast úti á
rúmsjó. þegar sýnt þótti, að bátarnir næðu ekki landi var símað til
stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það, að skip á þessum slóðum,
sem til næðist yrðu beðin að koma bátunum til hjálpar. Var þá strax sent skeyti
til allra skipa á þessu svæði og þau beðin að líta eftir bátunum. Strax um
kvöldið voru fimm íslenskir togarar komnir á vettvang til hjálpar, þeir
Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra, Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir
einn bátinn "Trausta" frá Eyrarbakka og dróg hann til Reykjavíkur, en Skallagrímur
bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", einig frá Eyrarbakka. Liðaðist hann
sundur og sökk, en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum,
Hannes ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til
Vestmannaeyja. Þann 8. apríl gerðist viðlíka atburður þegar allir bátar
Stokkseyringa og Eyrbekkinga lokuðust úti vegna brims, en að þessu sinni var
ekki skaðræðis sjór, en allhvöss norðanátt svo menn biðu rólegir af sér
brimhretið. Það var svo ekki fyrr en daginn eftir og fram á kvöldið sem
bátarnir náðu lendingu. Svo óheppilega vildi til að "Trausti" brotnaði þá mikið
í lendingunni. Er hér var komið höfðu Eyrbekkingar tapað tveim vélbátum frá
veiðunum.
["Öðling" áttu Árni Helgason í Akri, Guðmundur Guðmundsson og Sigurður
Guðmundsson á Litlu Háeyri, sem var þá háseti á Skallagrími og í þeirri einkennilegu
stöðu að heimta skipverja og nágrana úr helju. Formaður á "Trausta", var Jón
Jakopsson í Einarshöfn en átta voru í áhöfn hans. Skipstjóri á "Gylli" var
Ingvar Einarsson frá Reykjavík. Þótti þessi hjálp frá togurunum mikið afrek enda
einsdæmi hve mörg mannslíf voru hér í húfi, eða um 100 manns og engan þeirra sakaði.
Á "Hannesi Ráðherra" var skipstj. Guðm. Markússon, og "Earl
Kitchener", var skipstjóri
Alexander Jóhannsson, en þeir aðstoðuðu Friðrik Sigurðsson, form. á vélb.
"Svanur" og Jón Helgason, form. á
vélb. "Freyr" að koma bátum sínum ólöskuðum til Vestmannaeyja.]
Samfélag: U.M.F.E tók upp á þeirri nýbreittni
að halda einskonar kvöldvökur, þar sem piltarnir hnýta net, skera í tré o. fl.
Stúlkurnar sauma, prjóna o. s. frv. Á meðan las einn upphátt: Þjóðsögur, kafla
úr íslendingasðgum, kvæði o, fl. Á miðri
vöku var drukkið kaffi. Allir höfðu með sér kaffi mal að heiman, sykur og
brauð, og var öllum forðanum steypt saman. í vökulokin var húslestur og sálmar
sungnir. Þessi háttur varð mjög vinsæll í báðum deildum (aldursflokkum). Í
félaginu voru þá 150-160 félagar. Stofnuð var ný stúka á Eyrarbakka með 24 félögum.
Hét hún "Alda" en stúkan, sem var hér áður, "Eyrarrósin" féll niður.
Glímukappar komu og héldu
sýningu fyrir þorpsbúa, áður en farið var utan til Danmerkur, en þar stóð til
að kynna íslenska glímu. Á meðal þeirra var Björn Blöndal Guðmundsson
verslunarmaður og Kári Sigurðsson trésmiður, báðir frá Eyrarbakka. Þeir komu
svo heim með Gullfossi og stigu í land í Þorlákshöfn. Í skátafélaginu
Birkibeinum voru 21 skáti, en félagið var nú 5 ára. Ketill Gíslason var flokksforingi.
Félagið var fátækt og átti erfitt um vik með að afla sér styrkja til að efla
félagið. Pólitískir forustumenn heimsóttu Bakkann, svo sem kratinn Jón
Baldvinson o.fl. Þá kom hér Dr. Heinrich. Erkes, háskólabókavörður í Köln og
alþekktur Íslandsvinur á þessum árum. Hingað komu líka skátar úr Reykjavík, "Væringjar"
og komu þeir fótgangandi alla leið. Flöskuskeyti rak hér á fjörur og var það frá
erlendu skipi. Rauðikrossin hélt hér hjúkrunarnámskeið í boði kvenfélagsins, 33
stúlkur sóttu. Leiksýningar vorur reglulega haldnar í samkomuhúsinu Fjölni af
leikfélaginu hér.
Samgöngur: Sigurður Óli Ólafsson var með fastar
ferðir milli Eyrarbakka og Reykjavíkur þrjá daga í viku, bæði með fólk og
flutning. Bílafloti hans var, Ford
fólksbíll, Overland fólksbíll, Dodge vöruflutningsbifreið, tveir Cevrolet
hálfkassar og nýr Buick. [Eitthvað
af þessum bílaflota var til sölu.] Vörubílastöðin í Reykjavík sendi hingað vörur eftir þörfum. Aðrir
í þessari samkeppni um farþeganna var Bifreiðastöð Steindórs með Buick
bifreiðar og Bifreiðastöð Reykjavíkur, sem var aðalega útbúinn Fíat-bifreiðum.
Heilsufar: Taugaveiki kom upp á heimili Gísla
héraðslæknis og Aðalbjörgu konu hans og þrem öðrum húsum. Höfðu 5 til 10 manns
tekið veikina. Unglingsstúlka, fósturdóttir þeirra læknishjónanna, Vígdís
Ólafsdóttir lést fljótlega af völdum veikinnar og nokkru síðar dóttir þeirra, Valgerður
Aðalbjörg, 7 ára, og
síðan Karen Ólafsdóttir í Garðbæ, er þar lá þar veik. Var talið að smitið hafi borist með mjaltakonu einni er stundaði kýrnar á
Garði, ( þar voru tvær kýr) og í mjólk er keypt var til heimilis læknisins.
Gerðar voru fyrirbyggjandi ráðstafanir með aðstoð landlæknis. (Auk Gísla
Péturssonar var læknir hér Lúðvík Nordal). Ljótt slys varð um áramót, þegar drengir voru að leika sér að
því að sprengja flugelda, og tókst svo hrapallega til, að einn drengurinn misti
tvo fingur af annari hendi.
Látnir: Guðríður Guðmundsdóttir, Vinaminni
(81), Jón þurrabúðarmaður,
Guðmundsson, Eyvakoti (78), Gísli bóndi Ólafsson, Stekkum (71), Valdís
Vigfúsdóttir Skúmstöðum (Götuhúsum), Ástmundur rafvirki Guðnason, Einarshöfn
(25), Karen Ólafsdóttir Garðbæ (22), Vígdís Ólafsdóttir Læknishúsi (20),
Ásmundur Guðnason togarasjómaður
frá Einarshöfn,(26) eftir langvarandi vanheilsu. [Hann var einkasonur Guðna
Jónssonar og Sigríði Vilhjálmsdóttur], Valgerður Aðalbjörg Gísladóttir,
Læknishúsi (7).
[Ásgeir Blöndal fv. héraðslæknir f. 1858. Valgerður Magnúsdóttir,Vívatson
í Norður Dakota f.??. Kristín
Helgason í Chicago f.1838]
Sveitin: Skemtisamkoma var haldin við
Ölfusárbrú þann 22. ágúst, en mánuði áður hafði komið þar við þýsk hljómsveit,
Hamburger Philharmonisches Orchester. Um miðjan desember stóðu þar 10 bílar fastir
í snjó og komust hvergi og urðu 30 manns að gista í Tryggvaskála af þeim sökum.
Þá varð bruni við Ölfusá (Selfossi). Brann þar vörugeymsluskúr sem verslunin
Höfn (útibú Heklu) átti og voru aðallega geymd í skúrnum kol, steinolía og
bensín. Skúrinn brann til ösku.
Tíðarfar og náttúra: febrúar var mjög hlýr, hæst fór hitinn hér í 8,3°C. Í mars
var úrkomusamt og talsvert yfir meðallagi. Í apríl fór hitinn hæst í 12,3°C. Í maí
17.9°C hæst, en stormasamt var þó þennan mánuð. Sæörnin (Haförn) var að hverfa
úr Árnessýslu. Nokkrir ernir höfðu á árunum áður hafst við í Ölfusi og afréttum
Gnúpverjahrepps en drepist flestir af refaeitri. Nú var talið að aðeins einn
eða tveir Sæernir væru eftir í Sýslunni og héldu þeir til í Ölfusi. Í júní
mældist hæst 20°C, og hagstæð tíð. Vinna hófst við að hefta sandfok og girða
sandgræðslureitinn á ný eftir sjávartjón síðasta vetrar. Þá var safnað talsvert
af melfræjum um haustið til frekari uppgræðslu. Í júli var heitast 20,7°C á
Eyrarbakka, en annars var úrkomusamt. Í ágúst fór hitinn í 19.1°C, annars
votviðrasamur. Kartöfluræktun var hér mikil sem áður og var uppskeran mestmegns
seld í verslunum í Reykjavík. Snemma í september fór hitinn í 16.1°C en um
miðjan kom frostið. Í lok oktober mældist 10 stiga frost, en mánuðurinn var
kaldur, sem og nóvember, en þá mældist 9 stiga frost og í desember var það mest
-11°C. Sjógangur var mikill og brotnaði sjógarður vestan við þorpið [80m kafli]
og árabátur sem þar var. Einnig bryggja nokkuð.
Aths. Þar sem heimildir í blogþáttunum "Sú
var tíðin" eru unnar mestmegnis úr fréttum blaða og tímarita er ekki hægt að
ábyrgjast að heimildir þessar séu áræðanlegar í öllum tilvikum. Leitast er við
að telja ekki upp atriði eða atvik sem augljóslega eru röng, eða mikill vafi
leiki á, ella hafi komið í ljós leiðrétting eða gagnrýni annarstaðar í sömu
heimildargögnum.
Heimild: Dagblöð og vikurit 1926: Aldan, Morgunblaðið, Vísir,
Ísafold, Dagblað, Verkamaðurinn, Tíminn,
Önnur rit: Árbók Héraðssambandsins Skarphéðins - 1926.
Templar, Hlín,Veðráttan, Búnaðarrit, Óðinn, Liljan, Íþróttablaðið, Tímarit
verkfræðifélagsins, Ægir, Samvinnan,
21.04.2013 11:40
Sú var tíðin, 1925
Íbúar voru 808 á Eyrarbakka árið 1925 og hafði fækkað um 35
frá fyrra ári. Reykjavík sogaði til sín fólk héðan af ströndinni. Þurrabúðir og
kot voru smám saman að leggjast í eiði. Höfuðstaðurinn dró til sín námsmenn, sem
og verkafólk til ýmsra starfa og sjómenn. Á Bakkanum vonuðust menn eftir
símalínu allt vestur til Reykjanes, því bátar héðan fóru oft vestur að
Sandgerði til veiða, en 16 ár voru nú liðin síðan símstöð var opnuð á
Eyrarbakka. Íslenska sjóstakka vildu sjómenn hér fá í tilraunaskyni í stað
erlendra. Bryggjugerðin var hinsvegar mesta framfara skrefið um þessar mundir.
Sjávarútvegur: Aflalaust var við ströndina í janúar,febrúar
og mars, en einhverjir bátar reyndu fyrir sér þegar gaf á sjó. Vertíðin hófst
svo fyrir alvöru 20. mars og gerðu 24 mótorbátar út frá Eyrarbakka og
Stokkseyri. Aflaðist strax ágætlega og menn töluðu um "aflahrotu" hér
sunnanlands. Í aprílbyrjun var slíkur landburður af fiski að menn hér mundu
ekki annað eins. Heldur dró úr fiskigengd er á leið vertíðina. 3.520 skipspund
komu á land á Eyrarbakka og Stokkseyri þessa vetrarvertíð og rúm 500 í
Þorlákshöfn. Ekkert aflaðist um sumarið. Útgerðin hér við ströndina vildi láta
koma á landhelgisgæslu á fiskimiðum Stokkseyrar og Eyrarbakka, en enskir
togarar voru orðnir aðgangsharðir hér á miðunum. Stofnaður var lendingasjóður
til að standa straum af hafnargerð er fram liðu stundir.
Skipakomur: Mb. Skaftfellingur kom hér 21. maí og síðan eina
ferð í mánuði yfir sumartímann. Mb.
Úlfur hafði boðað komu sína, en sneri frá vegna vélarbilunar. "Villemoes" kom
með steinolíu til útibús Landsverslunar. "Annaho" kom með salt til Eyrarbakka
og Stokkseyrar. "Svanur" kom seint í nóvember með kol til kf. Heklu.
[í Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslum höfðu kaupmenn
fengið hafskip með vörur beint frá
útlöndum undangengin þrjú ár, sem skipað var upp á Skaftárós, Vík, Holtsós,
Hallgeirsey og í þykkvabæ. Það var Ásgeir Jónasson skipstjóri frá Hrauntúni sem
fyrstur sigldi skipinu Borg á þessa staði.]
Sjóslys: Enska togveiðiskipið "Viscount Allenby" strandaði
við Þorlákshöfn í brimi og svarta myrkri. Áhöfnin 10 menn björguðust með aðstoð
Þorleifs Guðmundssonar og hans manna í Þorlákshöfn [alls 4 menn auk Sigurðar
Þorleifssonar sem var 13 ára]. Náðu sjómennirnir að handstyrkja sig á kaðli til
lands þar sem þeir voru gripnir úr brimlöðrinu. Skipið sökk skömmu síðar. [Skipstjórinn
var Mr. Thomas Wren]
Verslun: Kanpfélagið Hekla á Eyrarbakka byrjaði að byggja bús
við Ölfusárbrú. Þar var væntanlegt útibú frá félaginu. [ Kaupfélagið Höfn] C.
Pedersen lyfsali á Eyrarbakka fór héðan alfarinn erlendis en áður seldi hann
lyfjabúð sína dönskum lyfjafræðingi.
Landbúnaður: Kartöfluræktun á söndunum var orðinn stór
útvegur um þessar mundir. Fjár og kúabúskapur var jafnan til hliðar við önnur
störf.
Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur og Steindór héldu einkum uppi samgöngum milli Eyrarbakka og Reykjavíkur yfir sumartímann.
Samfélag: Heimilisiðnsýning var haldin hér fyrir tilstulan
U.M.F.E. Glímukappar U.M.F.Í héldu sýningu í Fjölni. Á meðal þeirra var Árnesingurinn,
Sigurður Greipson, en hann var einnig með íþróttakennslu hér á Eyrarbakka og
Stokkseyri. Söngfuglinn Sigurður Birkis söng sig inn í hjörtu Eyrbekkinga og
Stokkseyringa. Jón Jónsson læknir stundaði tannlækningar hér um mánaðar tíma. Þann
6. febrúar voru húsmæður á Eyrarbakka boðaðar á fund, sem halda átti vegna
sögusagna um að stofna ætti "her" hér á landi til að berja á alþýðunni. Hvort
þessi skröksaga alþýðuleiðtoga landsins hafi fengið Eyrbekkskar húsmæður til að
storma á fundinn er hinsvegar ekki vitað. Hvort þessar skröksögur hafi orðið
Bjarna Eggerts oddvita að yrkisefni er hann samdi Alþýðustökur sínar einnig
óljóst:
Oft eru kvæðin efnissmá
og ekki á réttum nótum.
sem að kveðin eru á
eykta- og gatna-mótum.
En þó er gull og gersimar
geymd í þessum sjóðum
og margt af slíku metið var
móti bestu ljóðum.
En það voru fleiri sem kunnu að kveða á Bakkanum, svo sem
Sigfús Guðmundsson snikkari sem kvað yfir spilum:
Að spila "vist" er lífsins list
lífgun tvistu sinni,
eins og kyst sé refla-rist
rjóð í fyrsta sinni.
Íþróttamót var haldið að Þjórsártúni og í 100 m. hlaupi fékk 2.
verðlaun Kári Sigurðsson, U.M. F. Eyrarbakka (13 1/5 sek.). Annars voru Hrunamenn
hlutskarpastir í flestum greinum. Þá var haldin þar iðnsýning í tengslum við
mótið. Vefnaður frú Herdísar Jakobsdóttur og nemenda hennar á Eyrarbakka, vakti
mikla eftirtekt, einkum fyrir smekkvíslega litablöndun og fögur munstur og
mikið þótti og varið í prjónanærföt frá bankastjórafrúnni á Selfossi. Aðalsteinn
Sigmundssom skólastjóri sendi út áskorun til Eyrbekkinga, bæði heima í héraði
og utanhéraðs um að styrkja skólann, sem ekki var vanþörf á. Söngfélagið
Þrestir úr Hafnafirði tók lagið hér á Bakkanum. Þórdís Símonardóttir ljósmóðir
settist í helgan stein. Hafði hún þá tekið á móti um 1.500 börnum.
Látnir: Ólafur Teitsson hafnsögumaður Skúmstöðum (86), Magnús Ormsson (83), hann
var um langt skeið hafnsögumaður og formaður hér á Eyrarbakka. Sesselja Ólafsdóttir skúmstöðum (73),
[ekkja Ebenesers Guðmundssonar gullsmiðs], Jón Hannesson bóndi Litlu-Háeyri (72)
Árni Árnason þurrabúðarmaður í Stíghúsi (60), Sigurður Pálsson Laufási (28), [Hann
andaðist á Franska spítalanum í Fáskrúðsfirði], Guðríður Guðmundsdóttir Háeyrarvöllum (1).
[Sigurður Eirlksson er um tíma bjó á Eyrarbakka. Hann stofnaði sjómanna félag á
Eyrarbakka og Stokkseyri og í Keflavík.]
Sýslan og sveitin: Hugmyndir voru uppi um stofnun héraðskóla
Suðurlands að Reykjafossi [nú Hveragerði]
í Ölfusi. Skemtisamkomur voru oft í Tryggvaskála við Ölfusárbrú, en þar rak
Guðmunda Níelsen veitingahús.
Tíðarfar og náttúra: 14-21 janúar gerði stormviðri og
stórsjó. Þann 21. braut sjórinn og eyddi sjávarvörnum við Stokkseyri,
Eyrarbakka og Grindavík og flæddi langt upp á land og gerði mikið tjón. Fólk
margt flýði úr húsum sínum. Sjógaðurinn frá Stokkseyri að Hraunsá lagðist allur
undan sjóganginum. Sömu leið fór sjógarðurinn frá Eyrarbakka og vestur á
Óseyrarnes, sem og garðar fyrir Hrauns löndunum féllu víðast. Girðingar allar í
sandgræðslunni þar fyrir innan eiðilögðust og hálfgróin sandgræðslureiturinn
fyllti af sandi. Steinolíuport kf. Heklu fauk að miklu leyti og skemdir urðu algerar
á innsiglingamerkjum [Sundvörðum] og nýlegum ljósabúnaði þeirra. Matjurtagarðar
Eyrbekkinga er lágu fleiri hndruð metra með sjógarðinum og biðu sáningar urðu
fyrir einhverjum skakkaföllum. Heyskaðar höfðu einnig orðið hér í grend og
lítil hlaða fauk á Stokkseyri. Foktjón varð víða í uppsveitum. Úrkomusamt mjög
var í Mars, Júní og júlí. Lóan kom þann 2. apríl, en það er sá dagur sem hún
hefur oftast komið á að meðaltali.
Nóvember var fremur hlýr á Bakkanum.
Ýmislegt: Það gat verið erfitt verk og ekki hættulaust að
sveifa bifreið í gang, en það fékk Guðmundur Halldórsson úrsmiður að reyna,
þegar hann ætlaði í smá sunnudagsbíltúr. Þegar bifreiðin hrökk í gang snerist
sveifin með af afli og braut handlegg hans mjög illa sem auk þess fór úr liði
við úlnlið.
Heimildir, dgablöð 1925: Vísir, Morgunblaðið, Ísafold,
Dagblað,Tíminn,
Tímarit 1925: Veðráttan, Ægir,
15.04.2013 17:15
Sú var tíðin, 1924
Íbúar á Eyrarbakka árið 1924 voru 843* og hafði þeim fækkað
um tæp 11% frá fyrra ári. Samskonar þróun átti sér stað á Stokkseyri.
Vinnuaflsskorturinn í Reykjavík hefur ráðið mestu um fólksfækkun hér, þar sem atvinna
við ströndina var meira árstíðarbundin og annars stopul. Sjúkrahúsbyggingunni
sem var nær lokið var nú í biðstöðu þar sem fé skorti til áframhaldandi
framkvæmda. Vonir stóðu til að "Eyrarspítali" yrði útbúinn röntgentækjum þegar
framkvæmdir kæmust aftur í gang. Engin vatnsveita var komin á Eyrarbakka, og
var það farið að há framtíðarþróun þorpsins, en þannig vatnsöflun var hér ýmsum
örðuleikum bundin. Brunnvatnið varð því enn að nota sem fyr.
Atvinna: Atvinna var næg á meðan vertíðinni stóð. En búist var við almennu atvinnuleysi
yfir sumarið, þar sem gert var ráð fyrir, að framkvæmdir við Flóáveituna myndu liggja niðri
þetta árið, en við hana unnu að jafnaði fjöldi manna af Eyrarbakka og
Stokkseyri. Eitthvað var þó unnið við vegavinnu á Eyrarbakkavegi, suðurlandsveg
og í uppsveitum sýslunnar. Vinna við bryggjuframkvæmdir voru líka einhverjar,
en oft var hagur manna þröngur. Ungir menn héðan einhverjir réðu sig til sjós
fyrir "sunnan", þá einkum á togara og landvinnu, en eftirspurn eftir duglegu verkafólki
var mikil á Reykjavíkursvæðinu og ásókn í fólk héðan. Kom það sjaldnast aftur
sem farið var.
Verslun og þjónusta: Sparisjóður Árnessýslu fjármagnaði kaup
á nær öllum mótorbátum sem gerðir voru út hér í sýslunni auk veiðarfæra og reindist
það heldur bratt veitt. Átti hann nú í vanda vegna rekstrartaps og varð að
leita á náðir ríkisins. Tap sjóðsins umfram eignir nam þá um 14 %, eða tæp 500
þúsund kr sem á vantaði. Var þá lagt til að sjóðurinn mundi sameinast
Landsbankanum og var það samþykkt á hluthafafundi gegn 75 % tryggingu
innistæðna1. Tapið orsakaðist sumpart af því að vertíðin 1923 brást
að mestu og síðan vegna mikils verðfalls á fiski. Almennt voru bankar landsins
(Landsbanki og Íslandsbanki) að tapa af sömu ástæðum og einnig vegna gengistaps.
Órói var enn vegna olíusölunnar hér, en landsverslun seldi olíufatið héðan 9
kr. dýrari en í Reykjavík. Olían fékst þá lækkuð nokkuð, eða svo munaði 7 kr.
Olíuportið kölluðu gárungarnir "Héðinsskans".
Skipaferðir: Skipakomur höfðu verið venju fremur miklar, þetta sumar. Eimskipið
"Gullfoss" kom til Eyrarbakka 11. júli og náði að skipa upp megninu af þeim
vörum er hingað áttu að koma. Kom það aftur hér mánuði síðar og tók héðan 500
balla af ull. "Willemoes" skip Landsverslunar kom tvívegis um sumarið og
skipaði upp steinolíufarmi til olíuverslunarinnar hér, en í þriðju ferð sinni fékk
skipið ekki samband við land þar sem allur mannskapur var í heyskap um þessar
mundir,og fór það því að svo búnu 2. Strandferðaskipið
"Skaftfellingur" kom og sótti fullfermi af fiski til útfluttnings. Tvö skip komu til Kf. Heklu, annað
með kol og hitt með salt, kom það frá Spáni og var 14 daga á leiðinni upp. Svo
kom Esjan og tók ull hjá kf. Heklu.
Sjávarútvegur: Sjómenn hér fluttu nær allt slóg sem til féll
út á grunnmiðin. Var talið að fiskur héldist við lengur á miðunum væri þetta
gert, þó ekki hafi verið þess vegna að nú bar svo við að óvenju vel aflaðist á
vetrarvertíð og á stundum mokafli svo jafnvel að með fádæmum var. Saltlaust var
orðið um miðja vertíð og var þá snarlega brugðist við um að fá saltskip hingað
svo veiðar gætu hafist að nýju. Um 15% aflans var ekki verkaður til
útfluttnings. (19.500 stk. ýsur og 2.264 stk. ufsi og keila). Á Eyrarbakka og
Stokkseyri voru gerðir út 20 mótorbátar, allir undir 12 tn. Teinæringar voru 5
og 1 sexæringur. Sjómenn voru samtals 255 á þessum veiðistöðvum, þ.a. 162 á
mótorbátum. Var þessi vertíð sú besta hingað til, sem sögur fóru af.
Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur (B.S.R.) hélt uppi fólksferðum
milli staðanna, Eyrarbakka, Stokkseyri og Reykjavíkur tvisvar í viku yfir
sumartímann og Bifreiðastöð Steindórs einn dag í viku. Bifreiðastöð Eyrarbakka
(B.S.E.) var hinsvegar með daglegar ferðir milli þessara staða. Að B.S.E. stóðu
Sigurður Óli Ólafsson, Steingrímur Gunnarsson, Bjarni Kr. Grímsson og Einar
Einarsson. Vöruflutningabílar komu daglega úr Reykjavík, aðalega með
verslunarvarning. Stöku ferðir áttu hingað aðrar bifreiðastöðvar, svo sem "Sæberg"
í Hafnafirði.
Samfélag: Skátarnir ("Birkibeinar") gáfu út blaðið "Áhugi",
en ritstjórar þess voru Björn Guðmundsson og Ketill Gíslason. Blaðið fjallaði
aðalega um íþróttir og skátastarf. Íþróttamót var haldið við Þjórsárbrú. Í
kappglímu drengja unnu til verðlauna 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M.
F. Eyrrarbakka. 2. verðl. Dagbjartur Bjarnason frá U. M. F. Stokkseyrar. Í 100
m. hlaupi, l.verðl. Kári Sigurðsson frá U. M. F. Eyrarbakka. Í 100 m. hlaupi
drengja 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M. F. E. Í langstökki, l.verðl.
Kári Sigurðsson frá U. M. F. E. Í Hástökki, 1. verðl. Kári Sigurðsson frá U. M.
F.E. Flesta vinninga á mótinu, 15 stig, hlaut U. M. F. Eyrarbakka. Fékk það að
verðlaunum skrautlegt skjal, er teiknað hafði Sigurjón Ólafsson málaranemi á
Eyrarbakka. Lítið fór fyrir pólitískri umræðu, en þó dúkkaði upp "Harð-jaxlinn"
og grínistinn Oddur Sigurgeirsson sem boðaði bolsévisma í Eyrarbakkaborg, eins
og hann kallaði staðinn og Bjarna Eggerts oddviti var borgarstjórinn í hans
augum. Jafnaðarmannafélag Árnesinga, stjórnmálafélag innan Alþýðuflokksins, var
stofnað á Eyrarbakka 24. nóvember. Stofnendur voru 56 af Eyrarbakka, Stokkseyri
og víðar úr sýslunni.
Látnir: Jóhann Magnússon Einarshöfn (87), Guðbjörg
Eyjólfsdóttir Hópi (84), Helga Ingvarsdóttir Túní (74), Þuríður Guðmundsdóttir
Eimu (73), Sesselja Helgadóttir Gamla-Hrauni (35), Jóhanna Benediktsdóttir
Litlu-Háeyri (27), Margrét
Jóna Einarsdóttir grund (14), Ingileif Sigríður Pálsdóttir Sandvík (1), Sigurður
Guðmunsson Háeyrarvöllum (1), Jón Eyvindur Sigurðsson Götuhúsum (0) Sveinbarn Eyvindsdóttir Bakaríi
(0),
Byggingar: Steinskot II var byggt þetta ár.
Ýmislegt: P. Níelsen í Húsinu og fv. verslunarstjóri Lefolii
verslunar var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar er hann varð 80 ára. Hann var fæddur í Ring-Köbing á Jótlandi,
en kom hingað 1872, og varð þá bókhaldari við Lefoliisverslun á Eyrarbakka. Forstjóri
hennar var þá Guðmundur Thorgrímsen. P. Nielsen kvæntist dóttur hans Eugeniu,
25. júlí 1880, og tók hann við forstöðu
verslunarinnar af tengdaföður sínum 1. janúar 1887. Hvatamaður hafði hann verið
að ýmsum þörfum framkæmdum og velferðamálum. Hann stofnaði m.a. ábyrgðarsjóð fyrir róðrarbáta og kom
ýmsum umbótum af stað. Hann var auk þess mikill hvatamaður fyrir náttúruvernd á
Íslandi. Þá gaf hann Barnaskólanum mest allt Náttúrugripasafnsitt3. Sláturfélag Suðurlands gerði tilraun
til að slátra fé Árnesinga að Borg í Grímsnesi. Það þótti tilkomumikil sjón
þegar tvær sjóflugvélar enskar, flugu hér yfir á leið til Reykjavíkur. Það bar
við að Hvítá þornaði upp að öllu dagstund þann 29. febr.
Þjóðarhagur: Nefnd var sett á fót til að annast
gengisskráningu krónunnar og festa gengi hennar. Dollarinn kostaði 7 kr. og 56
aura, en dönsk króna kostaði 125, kr. og 69 au. Verslunin greiddi 5% af hreinum
arði til útsvars. Fiskveiðiárið var eitt það mesta í sögunni og
landbúnaðarvörur voru í góðu verði til útfluttnings.
?
1. Vegna slæmrar stöðu
Sparisjóðsins var haldinn fundur með innstæðueigendum 6. okt. 1923. Fundur
þessi var afarfjölmennur og niðurstaðan varð þá helst sú, að sjóðurinn héldi áfram
að starfa og ynni töpin upp aftur. Á fundi þessum var kosin nefnd til nánari athugunar
á málinu. Nefnd þessiboðaði svo aftur til fundar með innstæðueigendum þann, 24.
nóv s.á. Var þá aftur fjölmennur fundur haldinn um málið og skýrði þá nefndin
frá störfum sínum: að hún hefði reynt að ná samkomulagi við bankana [Landsbankann
og Íslandsbanka] um, að annarhvor þeirra tæki hann að sér, en alt kom fyrir
ekki, og nú sæi hún ekki annað ráð vænna, en að sjóðurinn héldi áfram og reyndi
að hafa sig upp aftur.Nefndin hóf á ný samningaumleitanir
og sótti aftur í sama horfið, að Landsbankastjórnin vildi fá sjóðinn með sem
mestum afföllum, 25% af innstæðueigendum og landið ábyrgðist 5%, alt svo með 30%
afföllum. En svo fóru leikar, að landsábyrgðin fékst ekki, og enn var haldinn
fundur um málið með innstæðueigendum 2. júlí 1924 og kom þá fram það tilboð, að
Landsbankinn væri fáanlegur til þess að hirða sparisjóðinn, ef innstæðueigendur
vildu fórna til þess ¼ af innstæðufé sínu. Fundurinn beygði sig undir þessa
vandræða úrlausn, að undanteknum fáum mönnum, sem ómögulega gátu felt sig við
þessa bóndabeygju. En sögu stærsta og öflugasta sparisjóðs landsin lauk hér. [Ransóknarnefnd skipuð heimamönnum mat tapið
6% í ljósi bætts hags til sjávarins á vertíðinni 1924, en rannsóknarnefnd
ríkisins mat tapið rúm 14 % m.v. þann aflabrest sem varð 1923].
2. Eftir að " Es. Willemoes" fór héðan óafgreitt, í þriðju ferð sinni, varð allmikið hafarí út
af þessu, þar láðist afgreiðslumanni að láta skipstjóra olíuskipsins vita að
ekki yrði hægt að losa skipið fyrr en á flóði næsta dags, þar sem allir
verkfærir menn voru við heyskap. Olían var síðan sótt til Reykjavíkur og flutt
hingað á mótorbátunum.
3. Náttúrugripasafn P.Níelsens sem hann afhenti Barnaskóla Eyrarbakka
til varðveislu var þannig a. m. k.: 23
uppsettir ísl. fuglar, sumir sjaldgæfir; 45 teg. ísl. fuglaeggja - þar á meðal
flestar sjaldgæfari teg. -, mikið safn ísl. og erlendra bergtegunda
o.m.fl. fylgdi gjöfinni nákvæm skrá yfir
safnið. Skápur, fylgdi gjöfinni er mátti rúma mikla viðbót.
* Íbúatal unnið úr mannfjöldaskýrslum árin 1921-1926, heildarfjöldi
skráðra íbúa 1924 en ekki m.v. 1.des þ.á.
Heimildir, dagblöð 1924: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið,
Tíminn, Vísir, Skutull, Ísafold, Lögrétta, Hænir,Vörður, Harðjaxlinn.
Tímarit 1924: Ægir, Áhugi, Tímarit Verkfræðifélags Íslands,
Þór,
04.04.2013 23:18
Sú var tíðin, 1923
Íbúar á Eyrarbakka voru 893 að tölu árið 1923 og hafði orðið
all nokkur fólksfækkun frá fyrra ári, (5,5%) eða um 52 og hafði þá íbúum fækkað
frá því mest var árið 1919 um 72 einstaklinga.1 Veðurstofa Íslands
setti upp veðurathugunarstöð hér á Eyrarbakka.2 Gísli Pétursson
héraðslæknir tók þá að sér veðurathuganir fyrir stofnunina. Hugmyndir um
Járnbraut frá Reykjavík og hingað austur yfir fjall voru enn til umræðu á
þessum tímum. Rafljós voru sett upp á sundmerkin og látin loga þegar bátar voru
á sjó, en annars ekki. Alþingi lagði til 2/3 af lofaðri styrkupphæð, eða 50.000
kr. til byggingu "Eyrarspítala", en ekki tókst að fjármagna sjúkrahúsið að fullu.
Andróðurs gætti frá Reykjavík og einnig innan sveitar. Húsið var ekki tekið í
notkun á þessu ári eins og stefnt var að. Lúðvík læknir Nordal, sem dvaldi hér
á Eyrarbakka til skams tíma, sem praktiserandi læknir, og tilnefndur læknir á
Eyrarspítala væntanlegum, hugðist sigla utan þetta sumar með hvatningu góðra
manna til frekara náms í skurðlækningum. Alþingi lagði til til bryggjugerðar á
Eyrarbakka 1/3 kostnaðar eða 10.000 kr. Gistihúsið
Fjölnir var nú leigt út, en þar var einnig samkomusalur Eyrbekkinga. Kosið var
til Alþingis og var kosningaþáttaka á Eyrarbakka 70%. Pólitíkin var sérstaklega hörð og óvægin,
eignuðust sumir við það vini en aðrir óvini. Þingmenn sunnlendinga urðu : Magnús
Torfason sýslumaður, og Jörundur Brynjólfsson bóndi í Skálholti, fyrir Framsókn.
Eitt hús var byggt hér á árinu, og heitir það Laufás.
[1 Þessi þróun hélst við næstu áratugina. Í Hagtíðindum voru skráðir íbúar á Eyrarbakka 1923 taldir 810, en íbúatalan 893 hér að ofan er unnin úr mannfjöldaskýrslum Hagstofu Íslands 1921 til 1925]
[2 Athuganir hófust í mars og var meðalhitinn
fyrir þann mánuð 4,7°C og SA áttir
ríkjandi.]
Olíustríðið: Landsverslunin sem nú hafði
einkasölu á olíu, keypti lóð af Guðmundi Ísleifssyni á Háeyri fyrir
steinolíugeymslu og var þegar hafist handa við að girða hana af. 3 "Willemoes"
skip ríkissjóðs kom síðan hingað 27. júní hlaðið steinolíu, en þá kom babb í
bátinn, því umboðsmaður þess hér hafði ekki báta á egin vegum til að landa
olíunni úr "Willemoes" og sýnt að hann fengi ekki báta heimamanna til verksins.
Kaupfélagið Hekla átti báta, löndunarbryggju og olíugeimsluskúra, en af
pólitískum ástæðum líklega fékk það ekki umboð Landsverslunar til olíusölu.
Guðmundur í Heklu var áður umboðsmaður hér fyrir ameríska steinolíufélagið, á
meðan það réði lögum og lofum hér á landi og fyrir Landsverslun hefði því þótt
ílt að lúta höfði og biðja Guðmund í Heklu um greiða. Var þá brugðið á það ráð
að leigja báta af Stokkseyringum og flytja olíuna úr Willemoes sem lá á Einarshöfn
og þaðan, austur í Háeyrarlendingu. Af þessu spunnust miklar pólitískar þrætur
í landsmálablöðum.
[3 Steinolíugeymslan
og olíuportið var nokkurnveginn þar sem Olísbúðin stendur nú. Áður fyr var
olían flutt á trétunnum, en járntunnur komu þetta ár. Ögmundur Þorkellson var afgreiðslustjóri olíuútibúsins hér.]
Sjávarútvegur: Gæftarleysi háði veiðum hér við
ströndina oft fyrri hluta vetrarvertíðar og komið fram í apríl er bátar gátu
stundað sjóinn að ráði. Gerðir voru út 12 mótorbátar og tvö róðra skip. Þessir
voru formenn: Árni Helgason, Akri. Jón Bjarnason, Björgvin. Páll Guðmundsson,
Eyri. Jóhann Jóhannsson, Brennu. Jón
Helgason, Bergi. Jón Jakobsson,
Einarshöfn. Jóhann Bjarnason, Einarshöfn. Jóhann Loftsson, Sölkutóft. Kristján Guðmundsson, Stighúsi. Kristinn
Vigfússon, Frambæ. Vilbergur Jóhannsson, Haga. Guðfinnur Þórarinsson, Eyri. Á opnum skipum: Sigurður Ísleifsson og Tómas
Vigfússon. Hugmyndir voru uppi um að kanna möguleika á hákarlaveiðum yfir
sumarið, en þekkt hákarlamið voru hér fyrir utan.
Verslun og Þjónusta: Kaupfélagið Hekla Sf. hóf að flytja
inn útlendan áburð um þessar mundir. Kaupfélaginu sem nú var að nafninu til "Samvinnufélag"
stóð til boða að ganga í "Sambandið" en félagið afþakkaði það.4 Á
Selfossi hafði verslun Egils Thorarensen vaxið nokkuð, en sú verslun var í
einskonar viðskiptasambandi við Kf. Heklu. Sparisjóður Árnessýslu var á sínum
tíma stærsti sparisjóður landsins, en nú var hann í vanda staddur vegna óvarlegra
útlána og átti í stökustu erfiðleikum með að greiða út innistæður. Var framtíð
sjóðsins í megnri óvissu allt þetta ár og gengu sparisjóðsbækur einhverjar
kaupum og sölum með afföllum.
[4 K.f. Hekla var nú skráð "Samvinnufélag" (Sf.) í stað hlutafélags (Hf.)]
Atvinna og landbúnaður: Verkamenn og sjómenn hér við ströndina höfðu sér til stuðnings, sægjulönd og skepnur eða garða, en stunduðu auk þess almenna eyrarvinnu og sjóinn eftir tökum. Kartöfluveiki kom hér fyrir í nokkrum görðum og var gerð gangskör til að útrýma henni að undangenginni ransókn.
Félagsmál: Almennt voru fundir hér vel sóttir, hvort sem
heldur var hápólitískur fyrirlestur á landsmálavísu eða alvarleg
innansveitarmál, hitnaði oft í kolunum þegar svo bar undir. Félagsmenn U.M.F.E
voru 114. Starfsemi félagsins var fólgin í fundahöldum, þar sem rædd voru ýms
mál, svo sem heimilisiðnaður, bindindismál, dýraverndun, trjá- og blómarækt og
íþróttir. Félagið gekst m.a.
fyrir iðnsýningu, sem haldin var á Eyrarbakka og gaf út tvö blöð, hét annað
"Geisli" en hitt "Stjarna". Í Fjölni var sett upp leikúsverkið "Almannarómur",
leikrit Steins Sigurðssonar.
Samgöngur: Nýja bifreiðastöðin í Reykjavík hóf samkeppni við
aðrar Reykvískar bifreiðastöðvar um ferðir þaðan austur til Eyrarbakka. Þótti
það tíðindum sæta að bifreiðarnar voru aðeins 4 tíma á leiðinni að vetrarlagi
(mars), en farið var hluta leiðarinnar á harðfenni.
Látnir: Vilborg Ingvarsdóttir í Norðurkoti (95). Guðrún
Jónsdóttir í Eyvakoti (87). Gróa Jónsdóttir í Gróubæ (80). Guðfinna
Einarsdóttir í Hallskoti (80). Magnús Magnússon þurrabúðarmaður í Nýjabæ (74). Stefán
Ögmundsson þurrabúðarmaður í Merkigarði (71). Auðbjörg Eyvindsdóttir á
Stóra-Hrauni (70). Halldór Þorvaldsson, þurrabúðarmaður í Eimu (58). Jónína
Anna Torfadóttir í Steinsbæ (57). Ólafur Helgason í Nýjabæ (56). Guðbjartur
Óskar Vigfússon, drengur á Gamla Hrauni (7).
Margrét Jónsdóttir (Bjó í Reykjavík en ættuð af Eyrarbakka,
Jóns Þorsteinssonar og
Sólvegar í Eyfakoti. Margrét var blind.) Ólafur Þorsteinsson verkfræðingur (frá
Garðbæ hér á Eyrarbakka, en bjó í Reykjavík. f.1884)
Sýslan og sveitin: Guðmunda Nílsen keypti gistihúsið
"Tryggvaskála" á Selfossi og endurnýjaði þar mest allann húsbúnað og auk þess
endurbætti hún húsið að mun. rak hún þar sumarhótel og veitingahús. Á pólitískan
útifund fjölmenntu bændur í næðingi og kulda að Selfossi þetta haust, í trássi
við bann guðsóttans manna, enda var þá sunnudagur. Á Stokkseyri fóru fram
hafnarumbætur og klappir sprengdar. Kaupfélag Grímsnesinga varð að hætta rekstri
með 30.000 kr. tapi.
Tíðarfarið og náttúran: Snjóléttur vetur. Hiti í janúar var
undir meðallagi en yfir í febr, og mars. Sandgræðsluverkefni sem staðið hafði
yfir frá 1920 var sýnilega tekið að skila árangri, því gróður hafði aukist
mikið á sandsvæðinu vestan þorpsins, einkum var það sandarfi og melgras, sem
þar óx. Sandurinn var þá búinn að fylla þar djúp síki og seftjarnir.
Hagur: Gengi krónunar gagnvart viðskiptalöndum var afar
lágt og ríkisskuldir miklar.
Heimildir, dagblöð 1923: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið,
Tíminn, Vísir,
Tímarit: Ægir, Skinfaxi, Búnaðarrit, Vörður, Tímarit Verkfræðingafélags
Íslands, Tímarit íslenskra samvinnufélaga,
01.04.2013 20:37
Að áliðnum vetri

23.03.2013 22:00
Sú var tíðin, 1922

Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru árið 1922 samtals 945. Hafði fjölgað um 15 manneskjur frá fyrra ári, en það var fækkunnar ár. Bryggjugerðarmálin voru í brennideppli, enda löndunarskilyrði fyrir mótorbátana afleitar. Alþingi samþykkti 16.000 kr. styrk til bryggjugerðarinnar. Sjúkrahúsið* var nú í byggingu og vonir stóðu til að starfsemi þess gæti hafist að ári, enda þörfin brýn. Hreppsnefndarkosning fór fram á árinu og má segja að verkamannafélagið "Báran" hafi verið kosin, eða þeir Bjarni Eggertsson formaður félagsins, Einar Jónsson sem var ritari fyrir verkamannafélagið og Tómas Vigfússon. Þá var kosið til Alþingis og á Eyrarbakka greiddu 128 kjörgengir atkvæði**. Á Stokkseyri 98 og í Sandvíkurhreppi 39 og aðeins 30 í Ölfusi, en þar voru 150 manns á kjörskrá. Fram buðu 5 listar.
[*Sjúkrahúsið átti að heita "Eyrarspítali" og var Eyrarbakkahreppi fært það til eignar og reksturs af sýslunefnd haustið 1922. Það kom þó aldrei til þess að sjúkrahúsið tæki til starfa eins og til stóð. Fé var veitt úr sýslusjóði 1923, til að ljúka gerð þess en Eyrarbakkahreppur hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að hefja rekstur í húsinu á egin reikning og pólitísk sátt um ríkis-eða sýslufé til rekstrarins ekki fyrir hendi. Málgagn Samvinnumanna "Tíminn" skrifaði mjög harkalega gegn þessu framtaki Sunnlendinga því væntingar stóðu til að hefja byggingu Landspítalans í Reykjavík um þessar mundir og átti sá spítali að uppfylla þarfir Sunnlendinga fyrir sjúkrarúm er til kæmi. "Eyrarspítali" varð síðar fangelsi.] ( "Tíminn" gerði einnig harða atlögu að Sparisjóði Árnssýslu í skrifum sínum.)
[**D-listi Íhaldsmanna
vann kosningarnar á landsvísu, þá B-listi Samvinnumanna, C-listi kvennaframboð
sem kom að manni (Ingibjörgu H. Bjarnason), A-listi verkamanna og E-listi, hægra
sinnað framboð rak lestina.]
Útgerðin: Aflabrögð sögð góð hér við ströndina í byrjun
vertíðar og uppgripa afli er á leið. Tilraunir voru gerðar hér með snurrvoð (snurrevaad),
en þær veiðar þóttu ekki borga sig. Afli mest steinbitur og koli. Um haustið
aflaðist vel og dag einn komu 21.000 fiskar að landi. Það var kallað "Mokfiskirí".
Skipaferðir: Hingað á Eyrarbakka og Stokkseyri kom Es.
Gullfoss að taka ull, í stað Es. Suðurlands sem hafði verið í slipp um langan
tíma. Ekki er getið um önnur skip hingað þetta sumar.
Verslun: Kf. Hekla og Kf. Ingólfi, héldu enn velli þrátt fyrir erfiðleika ýmiskonar. Nú var orðið erfiðara um aðföng og fluttningar dýrir þegar skip fengust
ekki til að sigla til Eyrarbakka, beinustu leið, eins og fyrum. Samkeppni var
einnig mikil við litlu búðirnar, bæði hér og við Selfoss og síðan einkaleyfisverslun
sem ríkið var að koma á með ýmsar vörur. Kaupmenn sumir, hér og á Selfossi
freistuðust til að halda í góða kúnna með því að veita þeim áfengi, en það var
einkar illa séð af Templaramönnum.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru u.þ.b. þrisvar í viku fyrst um sinn en daglega er á leið sumarið. Um
farþega á þessari leið kepptu tveir aðilar: Bifreiðastöð Steindórs Einarssonar
og Bifreiðastöð Reykjavíkur, en fyrir þá ók Eyrbekkingurinn Steingrímur Gunnarsson.
Félagsmál: Samkomuhúsið Fjölnir var vinsæll og fjölsóttur
fundarstaður fyrir hin ýmsu málefni sýslunnar. Verkamannafélagið "Báran" á
Eyrarbakka samþykkti eftir 5 klst. fundarhöld að ganga inn í Alþýðusamband
Íslands og sömu leiðis gerði verkamannafélagið "Bjarmi" á Stokkseyri eftir 6
tíma fund. Félagar í "Bárunni" voru þá 150 talsins og 110 félagar í "Bjarma". Í
fiskideildinni "Framtíðin" á Eyrarbakka sátu: Guðmundur Ísleifsson óðalsbóndi á
Stóru-Háeyri. Bjarni Eggertsson, búfræðingur Eyrarbakka. Sigurjón Jónsson,
útvegsmaður Eyrarbakka. Oddviti Eyrarbakka var Guðmundur Jónsson. Á Bakkanum
birtust pólitískar kanónur snemma sumars í kosningasmölun, * annarsvegar
Moggamennirnir Jón Magnússon fv. forsetisráðherra og Magnús Guðmundsson, fv. ráðherra
og fimm manna her Alýðuflokksins, þ.á.m. Þorvarður Þorvarðsson og Ottó
Þorláksson.
[* Fyrr á árum skipuðu
Eyrbekkingar sér í tvær fylkingar, annarsvegar "Austurbekkinga" er fylgdu gjarnan
Háeyrarbóndanum að málum og "Vesturbekkinga" er oft fylgdu Lefolii gamla að
málum, en þessir höfðingjar elduðu stundum grátt silfur út af skipalegunni á
meðan þeir réðu hér ríkjum. Nú skipuðust fylkingar á annann veg, enda hagsmunirnir
aðrir. "Íhaldsmenn" er gættu sinna hagsmuna í verslun og þjónustu, (einkum
gagnvart "Samvinnumönnum" er voru að ná völdum yfir bændaversluninni í landinu.)
og "Krata" er höfðu völdin í verkamannafélaginu og sveitarstjórninni. Þessar
tvær fylkingar íhaldsmanna og krata hafa síðan lengi eldað gráa silfrið á
Bakkanum.]
Menning: Eggert Stefánsson söngvari og Sigvaldi Kaldalóns
komu hér á Bakkann og Stokkseyri, héldu tónleika í kirkjunum á báðum stöðum.
Skóli: Herdís Jakobsdóttir frá Húsavík hélt nokkur
handavinnunámskeið við barnaskólann. Merkastar afurða þóttu gólfmottur, sem
gerðar voru af úrgangsköðlum, er mikið féll til af á verstöðvum, og skór úr
hrosshári, er fengu sérstakt lof gagnrýnenda. Þá var m.a. kennari hér, Ingimar
Jóhannesson.
Slysfarir: Í apríl 21. druknaði á Eyrarbakka Þórarinn Jónsson
í Frambæ [f. Stóra-Núpi],kvæntur Guðrúnu Jóhannsdóttur og átti 2 börn. Vélbátur,
sem var á heimleið utan af sjó, tók niðri á skerjagarðinum úti fyrir höfninni
og stóð fastur. Hann dró á eftir sér róðrarbát hlaðinn fiski. Róðrarbáturinn losnaði
aftan úr, hvarf og sökk. Tveir menn lentu í sjónum og náðist annar með
lífsmarki. Eigandi bátsins var Guðm. Guðmundsson kaupfélagsstjóri og formaður
var Gísli Jónsson frá Þorlákshöfn. Atli frá Stokkseyri fórst þar í innsiglingu
á boða sem"Skjótur" nefnist og með honum 7 menn af Stokkseyri: Bjarni
Sturlaugsson formaður frá Starkaðarhúsum, Einar Gíslason bóndi frá Borgarholti,
Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónssonar á Stokkseyri, Þorkell
Þorkelsson frá Móhúsum, Guðmundur Gíslason frá Brattsholtshjáleigu, Markús Hansson
frá Útgörðum og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum. Fjögur skip reru frá Stokkseyri
og tvö af Eyrarbakka þennan dag, er skyndilega gerði brim allmikið, en þeim
tókst að lenda.
Látnir: Vilborg Erlendsdóttir,ekkja á níræðis aldri. Aldís Vigfúsdóttir frá Gygjarsteini
(83). Snorri Þórðarson frá Bráðræði (77). Guðleif Sæmundsdóttir frá Gamla-Hrauni
(75). Vilborg Erlendsdóttir frá Búðarstíg (75). Sveinbjörn Ólafsson, frá Hvoli
(66). [bróðir Sig. Ólafssonar sýslumanns í Kaldaðarnesi]. Pétur Guðmundsson kennari, af
langvarandi veikindum (63). [Hann var barnakennari Eyrbekkinga nálægt aldarfjórðung og bjó í Pétursbæ].
Oddný Guðmundsdóttir í Grund
(56) [ Hún var frá Steinum
undir Eyjafjöllum]. Þórarinn Jónsson í Búðarhúsum (37) [Fæddur á Stóra-Núpi en
bjó í Frambæ. Fórst af slysförum]. Reynir Sveinn Vilhjálmsson frá Skúmstöðum (1). Þríburar,
tveir drengir og stúlka frá Bakaríinu eftir fæðingu.
Hagtölur: Dollarinn kostaði 4 kr. og 71 aura. Fasteignamat á
Eyrarbakka nam samtals 8.173 kr.
Heimildir: Dagblöð 1922: Alþýðublaðið, Morgunblaðið,
Lögrétta,Tíminn,
Tímarit 1922: Skinfaxi,
Ægir, Tímarit Verkfræðifélags Íslands, Templar.
18.03.2013 23:23
Sú var tíðin, 1921
Árið 1921 voru 930 íbúar á Eyrarbakka og hafði þá fækkað um
26 manns frá fyrra ári. Að frátöldum kaupstöðum var Eyrarbakki næst stærsta kauptún
landsins, en aðeins Akranes var litlu fjölmennara. P. Níelsen fyrrum
verslunarstjóri vildi láta friða "Sæörninn"* (Haförn) og veita verðlaun fyrir
hverja skotna tófu. Framfaraskref voru stiginn, því nú var lagður sími milli
Eyrarbakka og Þorlákshafnar og símstöð sett þar. Það kom til að yfir vertíðina hefði
nokkur fjöldi vermanna þar viðveru, en auk þess var lagður nýr símaþráður milli
Eyrarbakka og Ölfusárbrúar (Símstöð var í Tryggvaskála).
[*Þá var talið að einungis þrenn pör væru eftir í landinu auk
nokkurra geldfugla. Talið var að rekja mætti fækkun arnarstofnsins til þess að
eitrað var fyrir honum sem og tófum og ýmsum vargdýrum. ]
Verslun: Verslun Guðmundu Nielsen í Miklagarði var nú
ævinlega kölluð "Guðmundubúð" og þar fékst allt mögulegt á milli himins og
jarðar, nema "Bakkavínið". Væntingar stóðu til viðskipta við sveitir
Rángárvallasýslu að stærstum hluta. Kaupfélaginu Heklu var breytt í
pöntunarfélag* til að komast undan útsvars-álögum. Verslun Andrésar Jónssonar
var enn með stærri verslunum hér og að auki með búð á Stokkseyri og Reykjavík.
Þá var hér ásamt fleirum kaupmönnum, Ögmundur Þorkelsson, Guðlaugur Pálsson,
Ólafur Helgason í Túnbergi,
Jóhann V. ofl. Á Stokkseyri stóð Kf. Ingólfur** sem viðskiptamesta verslunin. Spíritus (Kogari) og brennsluspritt var hér
selt í lyfjabúðinni og þótti drykkjarhæft, en bannlög voru fyrir því að flytja
inn áfengi og lá við stríði hér milli "Templara" og "andbanninga". Nokkrir
andbanningar á Eyrarbakka, kaupmenn o. fl., með prestinn í broddi fylkingar, stormuðu
til boðaðs fundar hér um bannlögin, í þeim tilgangi að álykta um afnáms bannsins,
en þó varð ekki af þeirri kröfu, þar sem fjöldi Templara stóðu í vegi fyrir
framgangi þess.
[*Kf.Hekla var pöntunarfélag upphaflega. ** Einar Benediktsson og Ólafur Árnason
stofnuðu
á sínum tíma "Ingólf" á Stokkseyri.]
Skipaferðir: Mb. Víkingur kom í apríl með vörur úr Reykjavík*
og Mb. Njörður kom með vörur hingað frá Reykjavík í maí og skip
Eimskipafélagsins "Es. Suðurland" í sömu erindum til Eyrarbakka og stokkseyrar ýmist,
nokkrar ferðir yfir sumarið. Mótorkútterinn "Úlfur" einnig frá Vestmannaeyjum
með varning og fólk. Es. Vaagekallen kom hingað í nóvember með ýmsar vörur.
[*Sýslunefndin Skoraði á Alþingi að veita ríflegan styrk til
bátaferða milli Rvikur og Eyrarbakka eða Stokkseyrar.]
Útgerð: Bátaeigendur á Eyrarbakka gátu nú tryggt báta sína
fyrir skemdum vegna ísreks úr Ölfusá, sem öðrum hættum og skemdum. Fiskiþing
samþykkti að verja 25.000 kr. til bryggjugerðar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri,
vélbátaútgerðinni til hagsbóta. Afli Bakkabáta var einna mestur á
haustvertíðinni. Olíuverð var hátt, en fiskverð lágt, þannig að útkoman var með
rírasta móti hjá mótorbátum, en betri á róðraskipum. Frá Þorlákshöfn gengu 7
róðraskip.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru orðnar mjög reglulegar og allnokkrir sem buðu upp á ferðir þessar, svo sem
Filipus Bjarnason í Reykjavík og bifreiðastöð Steindórs. Bifreiðar voru efnaðri
menn að eignast hér í þorpinu, svo sem Andres Jónsson kaupmaður og aðrir oft í
félagi um bifreið.
Skóli: Aðalsteinn barnakennari Sigmundsson fór með fimm
nemendur héðan í laugarnar í Laugardal. Fóru þeir á þrem reiðhjólum, en tilgangurinn
var m.a. að kenna þeim að synda. Skátafélagið "Birkibeinar"* stofnaði
Aðalsteinn hér um líkt leiti. Handavinnumunir, skólabarna héðan (einkum úr
basti,tágum og hrossatvinna) fóru á
Heimilisiðnaðarsýninguna í Reykjavík.
[
*Skátafélagið "Birkibeinar" stofnað í nóv. 1920]
Slysfarir: Magnús Jónsson frá Stokkseyri og Guðmundur Jónsson
frá Hæli, slösuðust nokkuð um borð í togaranum Agli Skallagrímssyni, er brot
reið yfir, en skipið var statt á Selvogsbanka. Tveir bátar rákust samann og sukku
á legunni á Stokkseyri eftir stórflóðs-öldu.
Látnir: Ragnhildur Þorsteinsdóttir (99). Hún var fædd 5.
október 1821. Ragnhildur var mágkona Þorleifs hins ríka á Háeyri. Var hún bústýra á Simbakoti meiri
hluta æfinnar, þar til kraftar hennar þrutu, en þá tóku þau hana hjónin Jakob
og Ragnheiður í Einarshöfn og önnuðust hana til dauða dags. Sólveig Árnadóttir frá Steinsbæ (89) Guðríður
Filippusdóttir frá Einarshöfn (84). Ólöf Jónsdóttir Neistakoti (84). Bergsteinn Pétursson
Garðhúsum (ungabarn). Meybarn
Þórdís Jónasdóttir Nýjabæ (Hvítvoðungur)
Sýslan og Sveitin: Magnús Torfason, tók við
sýslumannsemættinu og settist hann að á Selfossi. Skömmu síðar veiktist hann af
nýrnarbólgu og lagðist inn á Landakot. Steindór Gunnlaugsson tók þá við
embættinu til bráðabrigða. Var hann sá 15. sem gegnir embættisstörfum þessum síðan Sigurður sýslumaður
Ólafsson í Kaldaðarnesi sagði af sér árið 1915. Sýslubúar voru eitthvað á 7.
þúsund.
Ýmislegt: Fyrsta heimild um dúfu hér á Eyrarbakka, er þess
getið í auglýsingu að P.Nielsen hafi bjargað úr klóm ránfugls hér af götunni og
sent til Reykjavíkur. Auglýst var eftir eiganda dúfunar í Vísi 214.tbl.1921. Ástríður
Sigurðardóttur, 11 ára Bakkamær safnaði hér 191 kr. fyrir bágstödd börn í
Austurríki. "Lýsa" var höfð til matar heima fyrir.
Hagtölur 1921: Olía og veiðarfæri hækkuðu um 20% frá fyrra
ári, sem og annð verðlag. Gengi dollars var 5.75 kr. Gjaldeyrisskortur var í
landinu og höft þess vegna.
Heimild Dagblöð 1921: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl. Lögrétta, Ísafold, Tíminn, Heimskringla.
Tímarit 1921: Ægir, Templar, 19.júní. Dýraverndarinn.
16.03.2013 01:03
Sú var tíðin 1920
Árið 1920 voru 956 íbúar á Eyrarbakka, hafði þeim þá fækkað
um 9 manns. Það má heita af ýmsum ástæðum hafi hér ríkt neyðarástand fyrstu
mánuði ársins. Kvillasamt var í upphafi árs þegar illvíg kvefpest gekk hér um
ásamt skarlatsótt. Kíghósti slæmur gekk í austur-Flóanum. Kolaskortur var
viðvarandi, enn einn veturinn og dýrtíð sem fyr. Kolin þraut og rúgmjölið svo
egi var bakað þann veturinn. Bændur voru heylitlir og jarðlaust fram á vor. "Þjóðólfur"
blað sunnlendinga hætti að koma út snemma árs. Ekki stóð hugur Bakkamanna til
að leggja árar í bát, því nú var hafist handa við að undirbúa gerð bátabryggju
og byggingu sjúkrahúsins* sem lengi hafði staðið til og fé safnað af sýslubúum.
Rafstöð var keypt og undirbúið fyrir raflýsingu þorpsins**. Framfarir með ýmsu
móti virtust á næstu grösum.
[*Teikninguna af sjúkrahúsinu hefði Guðjón Samúelsson
húsameistari gert. Húsinu þannig lýst: Húsið er 8,00 X 18,60 m. að stærð.
Kjallari, 1. og 2. bygð. Allir útveggir steyptir einfaldir, en innan á 1. og 2.
bygð verða settar korkplötur á útveggi. Öll gólf verða úr timbri, og röruð og
cementsdregin að neðan. Í kjallara er eldhús, búr, þvottahús og geymsla. Á 1.
bygð sjúkrastofur, skurðstofa, herbergi fyrir lækni og hjúkrunarkonu. Á 2. bygð
sjúkrastofur og herbergi fyrir vinnumann og vinnukonu. í sjúkrahúsinu er ætlað
rúm fyrir 25 sjúklinga. Þar er nú fangelsið Litla-Hraun]
[** Rafstöðin var prufukeyrð í fyrsta sinn þann 27.ágúst
1920]
Verslunin 1920: Ný verslun opnaði í Miklagarði,
nýbyggðu húsi Guðmundu Níelsen þetta sumar. Fékk hún vöruskip hingað fyrir verslun sína og fyrsta konan sem tekst slikt verkefni á hendur. Andrés Jónson kaupmaður hér á
Bakkanum, opnaði vefnaðarvöruverslun á Laugarvegi 44 í Reykjavík, en einig rak
hann verslun á Stokkseyri. Kf. Hekla (st.1904) var hér umfangsmesta verslunin*
og á Stokkseyri Kf. Ingólfur sem fyr**, en hagur þessara fyrirtækja var nú
orðinn vart meira en bærilegur. Smákaupmenn voru mýmargir hér við ströndina enn
sem fyr.
[*Kaupfélagið Hekla á Eyrarbakka hlaut 7000 kr. aukaútsvar
haustið 1919. Reindist það afarþung byrði fyrir félagið, sem í raun og veru hafði
engar tekjur til að mæta slíkum álögum, nema það sem leiddi af fremur litlum
skiftum við utanfélagsmenn. Var félagið þá nýbúið að kaupa verslunarhús og
aðrar eignir Einarshafnarverslunar.]
[** Áhrifamenn innan Samvinnufélaganna í héraðinu (Kf.
Grímsnesinga) komu sér saman um að allar erlendar vörur handa Árnesingum og
vesturhluta Rangárvallasýslu ættu að koma í land á Eyrarbakka eða Stokkseyri,
en ekki í Rvík. Eitt kaupfélag, eða bandalag félaga, yrði fyrir alt þetta svæði.
Félagið eignist 200-250 smálesta
skip, sem flytti vörur yfir sumartímann milli Eyrarbakka (eða Stokkseyrar) og
útlanda. Yfir veturinn fengi félagið vörur um Vestmannaeyjar, á vélbátum, því
höfnin yrði þá ófær stærri skipum.]
Skipaferðir: Þann 22. janúar sást til barkskips
frá Eyrarbakka, og mönnum ljóst að það var í nauðum statt, enda hið versta
veður. Áhöfninni bjargaði enskur togari*, en skipið rak inn í brimgarðinn austan
við þorpið og brotnaði í spón. Skpið hét "EOS" og var á leið til frá Hafnarfirði til Halmstad í Svíþjóðar til viðgerðar
ofl. Ms "Svanur" kom hingað til Eyrarbakka í apríl með vörur og fór aftur í lok
mánaðar. Hrepti þá allmikið veður og sjó fyrir Reykjanesi og brotnatði af annað
mastrið. Skonnortan "Iris" með timbur til Eyrarbakka kom hér ekki, en lagði farminn
upp í Reykjavík. M.b.
"Ingólfur", eign Lofts Loflssonar, útgerðarmanns í Reykjavík kom þaðan með
vörur hingað í vetrarbyrjun. Mb. "Úlfur", stærsti mótorbátur landsins, kom hér með hluta af skurðgröfu**, þeirri fyrstu hér um slóðir, til nota við Flóaáveituna. Þann 24. ágúst kom "Sieka IV" með vörur til Kf. Heklu.***
[*Togarinn var "Mary A. Johnson" frá Scarborough.
Skipstjóri á Eos hét Davíð Gíslason]
[** Skurðgröfupartarnir voru fluttir héðan á tveim vögnum, er spentir voru fyrir "Tractora" þeim fyrstu er hingað komu og voru notaðir við Flóaáveituna]
[*** Ms."Sieka IV" var Hollenskt leiguskip, er átti að leggja af stað 6.maí með sement, mjöl og kartöflur til Kf. Heklu en vél þess bilaði þá og kom skipið því ekki fyrr en 24. ágúst og var þá hluti vörunnar skemdur, er nam 15.842 kr. en leigan á skipinu var kr. 14.000.]
Útgerð: Margir bátar skemmdust á Stokkseyri
í óveðri sem gekk yfir á útmánuðum. Í byrjun vertíðar var góður afli þá sjaldan
gaf á sjó. Sumir mótorbátarnir sóttu allt vestur að Sandgerði svo sem mb/Freyr.
Mokafli var hér um páska, alveg upp við landsteina og brá við að fjaraði undan
fiskitorfunum. Frá Þorlákshöfn var róið á 15 skipum og hafði þeim fækkað mjög,
en mannekla háði útgerðinni sem engöngu var stunduð á róðraskipum þaðan.
Landbúnaður: Hrossaræktarfélagið "Valur"* reisti girðingu
fyrir stóðhross í landi Eyrarbakkahrepps, og var innanmál hennar 36-40
hektarar.
[*Hrossaræktarfélagið "Valur". tók yfir 3 hreppa í
neðanverðum Flóa, Eyrarbakkahr., Sandvíkurhr. og Stokkseyrarhr. Það var stofnað
24. febr. 1918. Félagar þess voru í árslok 1919, 102 alls.]
Slysfarir: Tveir menn drukknuðu í lendingu á
Eyrarbakka þann 6. apríl. Voru þeir að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir
höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og
tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og
soguðust tveir menn út og drukknuðu, en einn bjargaði sér á sundi. *
[*Jóhann Bjarnason var sá er bjargaðist, hélt sér og öðrum
félaga sínum um stund uppi á sundi, en þar kom að lokum, að hann varð að sleppa
honum. Bjargaðist Jóhann með naumindum.]
Menning: Drykkjuskapur þótti mjög almennur
hér um helgar meðal ungs fólks sem svo er lýst: "Svo segja kunnugir menn, að drykkjuskapur
hafi aldrei í manna minni verið jafn mikill hér og nú í vetur, (1920) og fer
óðum í vöxt. Kveður svo ramt að, að barnungir menn ganga i hópum, hröðum skrefum,
á eyðileggingarvegi. Kemur varla fyrir nokkur helgi* - mætti næstum segja:
nokkurt kvöld - svo að ekki séu ölvaðir menn á ferli og geri ónæði meira og
minna...." Stúka var stofnuð hér í
framhaldi með 43 félögum, en það gerði Halldór Teplar Kolbeinsson er hér var á
ferð. Hét stúkan "Eyrarrósin" og í stjórn voru: Sigurður Guðmundsson, féhirðir.
Elín Sigurðardóttir, frú. Ritari var Ingvar Jónsson, verslunarmaður. Jóhannes
Kristjánsson. Gjaldkeri var Vilhjálmur Andrésson, skósmiður. Þórdís
Símonardóttir, lósmóðir. Guðmunda G. Bergmann, frú. Guðmundur Jónsson, oddviti.
Jón Einarsson, hreppstjóri. Sigurður Kristjánsson, verslunarm. Konráð Gíslason,
verslunarmaður og Elínborg Kristjánsdóttir, ungfrú. Dró mjög úr drykkjuólátum í
þorpinu eftir það. Í Fjölni voru oft haldnir fundir um hin ýmsu mál.
[*Aðfaranótt sunnudags
14. mars voru drykkjulæti með meira móti hér í þorpinu, og áttu þó Eyrbekkingar
miklu að venjast af þeirri vöru.]
Sýslan og sveitin: Sýslumaður var Guðmundur Eggers en
síðan tók við sýslunni Steindór Gunnlaugsson. Hreppstjóri á Eyrarbakka var Jón Einarsson,
í Mundakoti. Nokkuð var um að jarðir og kot væru falar í sýslunni. Svo var um
Hafliðakot hér, tún var fyrir tvær kýr, fjöru og mýrarbeit fyrir nokkrar kindur
og hross og dálítið fjörugagn. Fóaáveitufélagið hélt fund hér í Gistihúsinu 14.
febr. Gróðabrallarar í höfuðborginni sáu ofsjónum yfir fjárhæðinni sem fara
átti í landumbætur hér í Flóanum, en það var talið tveggja togara virði. Læknir
var hér Gunnlaugur Einarsson, en fór utan þennan vetur til starfa á erlendum
sjúkrahúsum. Greiðasöluna í Tryggvaskála við Ölfusárbrú keypti Þórður bóndi Þórðarson
frá Björk í Grímsnesi. Leynileg áfengisverslun var talin vera rekin á Selfossi
og sjálfsagt komið út í gróða. Stórtap var hinsvegar hjá hinu nýja útibúi
Landsbankanns á sama stað, þó ekki hafi verið vegna þess að þar var í eldi
særður hrafn, heilan vetur.
Samgöngur: Steingrímur Gunnarsson og Sigurður
Óli Ólafsson gerði út leigubifreiðar*
héðan af Bakkanum, en bifreiðar úr Reykjavík komu einnig hingað reglulega, svo
sem frá Steidóri Einarssyni sem síðar var vel þekktur hér. Vestur-íslendingurinn Frank Fredriekson
hugðist fljúga frá Reykjavík til Eyrarbakka** á flugvél sinni. Flaug hann svo
austur 24. júlí og lenti henni á Kaldaðarnesi. Með í för var Mr. W. Turton
vélamaður. Var þetta í fyrsta sinn sem flugvél lendir hér í Flóanum. Þann 26.
júlí flaug Frank aftur hingað austur, kom fyrst að Kaldaðarnesi, en sýndi svo
listflug hér yfir Þorpinu daginn eftir og lenti síðan á túninu við Stóra-Hraun.
Vélin hélt héðan til Eyja, en þar reindist ekki lendandi er til kom
og varð vélin að nauðlenda á Fljótshólum bensínlaus, með dauðann hreyfil. Var
þá meira bensín sótt hingað til Eyrarbakka. Kom vélin svo hér daginn eftir og
lenti heilu og höldnu við Stóra-Hraun eftir svaðilför þessa. Mótorbátar gengu
af og til milli Eyrarbakka og Vestmannaeyja með fólk og farangur. Hingað kom einnig maður á mótorhjóli, reyndist það vera Guðmundur Ágústsson frá Birtingaholti.
[*bifr. Steingríms
var ÁR-7 og Bifreið Sigurðar var ÁR-15.]
[**Um þetta leyti hafði "Flugfélagið" er ætlaði að halda uppi
flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja fundið sér ákjósanlegan lendingarvöll
á túninu við Stóra-Hraun og óskuðu íbúar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir
því að fá einnig flug héðan, félaginu að skaðlausu. (Sjá Mynd af vélinni)]
Skóli: Barnaskólanum á Eyrarbakka var lokað
8. mars vegna sóttvarna, sakir inflúensu. Var skólahúsið læst og ekkert um það
gengið. Einhverjir þá notað tækifærið, brotist inn og bramlað eitthvað
innanstokks og skilið þar eftir dauðan hrafn. Umdeildur ungur atorkumaður, Aðalsteinn
Sigmundsson var þá skólastjóri. Stofnaði hann ungmennafélag er tók aðsér
íþrótta og sundkennslu* hér. Fótboltafélag var einnig innan þess, vel sótt. Að auki tóku ungmennafélagar aðsér að sinna dýraverndunarmálum hér.
Kennarar voru þau Jakobina Jakobsdóttir, Ingimar Jóhannesson.
[*Sundkennarinn var Konráð Kristjánsson frá Litlu-Tjörnum í
S.-Þing. Sundlaug var þó ekki hér, en tjarnir margar og sjórinn.]
Látnir: Þóra Sigfúsdóttir (79). Hún var fædd
í Garðbæ á Eyrarbakka 12. nóvember 1841, en bjó að Vaðnesi í Grímsnesi. Magnús Ingvarsson, formaður frá Akri
(79). Margrét
Filippusdóttir frá Mundakoti (77). Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður frá
Skúmstöðum (76). Katrín
Einarsdóttir frá Einkofa (74). Bjarni Halldórsson, Þurrabúðarmaður frá Túni
(63). Guðjóna Þórdís
Jónasdóttir frá Túni (57). Jóhann Pétur Hannesson sjómaður frá Blómsturvöllum,
druknaði í lendigu hér (47). Vigfús Helgason þurrabúðarmaður frá Gamla-Hrauni (46). Oddur Snorrason sjómaður frá Sölkutóft,(Þurrabúðarmaður
í Bráðræði) druknaði í lendingu hér (45). Jóhanna Margrét Jóhannsdóttir frá Sölkutóft (kornabarn)
Guðmundur Ragnar Friðriksson
frá kaupmannshúsi (kornabarn). Ingibjörg Pálsdóttir frá Skúmstöðum (kornabarn).
Tíðarfarið: Veður voru fremur válynd fyrstu
mánuði ársins. 'Í byrjun mars var jarðlaust og allar skepnur á gjöf, en bændur
heylitlir. Voru keyptar frá Ísafirði 1600 tunnur af síld til skepnufóðurs fyrir
sýslubúa er koma átti hingað með skipi. Í maí var ófærð mikil á Hellisheiði.
Sumarið og haustið með ágætum.
Hagtölur: Dollar gekk á 7 kr. og 25 aura, lækkaði síðar í 5
kr. og 75 aura. Síldartunna kr.40. Hálft rúgbrauð kostaði 90 aur. Fargjald frá
Reykjavík til Eyrarbakka með bifreið var um 20 kr.
Heimild: Dagblöð frá 1920: Skeggi, Morgunblaðið, Alþýðublaðið,
Ísafold, Ægir, Tíminn, Vísir, Rit frá 1920: Tímarit Verkfræðifélags Íslands.
Templar. Skólablaðið. Tímarit Íslenskra Samvinnufélaga. Búnaðarrit 1920-1921.
Dýraverndarinn 1921.
10.03.2013 21:42
Sú var tíðin, 1919
Árið 1919 voru íbúar á Eyrarbakka 965 talsins og höfðu fjölgað
um 48 frá árinu áður. Bjartsýni ríkti um framtíðina þrátt fyrir erfiðleika
ýmiskonar. Vikuritið "Þjóðólfur" hætti að koma út um tíma, en var endurvakin og
prentaður á Haga í Sandvíkurhreppi, í prentvél sem var hið mesta skran. Prentsmiðjan
var síðan flutt í nýja Landsbankahúsið* á Selfossi. Heilsufar var allgott síðan
spanskaveikin gekk. Skólar voru að hálfu starfandi, því kennarar sóttu í aðra
vinnu sem gaf betur af sér. Atvinnuhorfur voru þó daufar í vertíðarbyrjun.
Helsta áhugamál Árnesinga voru hafnarmál, áveitan, spítalinn, skólamálin og
járnbrautin. Kosið var til þings og reyndu verslunarmenn hér að hafa áhrif á
gang mála. Þingmenn Suðurlands urðu þeir Eiríkur bankastóri Einarsson frá Hæli
með 1032 atkv. og Þorl. Guðmundss. í Þorlákshöfn - 614 -aðrir í framboði voru Sigurður
ráðun. fékk 335 -og Þorst. Þórarinsson Drumboddastöðum 317atkv. Pöntunarfélög
voru stofnuð í mörgum hreppum sýslunar.
[*Timburhús 14x24 álnir. Þar er í dag m.a. blómabúð og lengi
var myndbandaleiga í þessu húsi.]
Verslun 1919: Hinn rauðhvíti dannebrog var dreginn
niður hinsta sinni á "Bakkabúðinni" gömlu þegar verslunin "Einarshöfn" á Eyrarbakka, var seld á vormánuðum. Kaupandinn var kaupfél. "Hekla" hér á
Bakkanum og flutti hún starfsemi sína í Vesturbúðirnar. Verðið mun hafa verið
um 200 þús. kr. Verslun þessi var um langan aldur aðal-kaupstaðurinn fyrir alt
suðurlandsundirlendið vestan Kúðafljóts, og ein allra stærsta verslun landsins.
Kf. Hekla sem nú var stærsta verslun Suðurlands þurfti að útvega sér
kauptíðarvörur sínar úr Reykjavík, þar sem vélarbilun kom upp í vöruskipi
þeirra í K. höfn. Verslun Andresar Jónssonar var önnur stærsta verslunin hér á
Bakkanum, en nú einnig á Stokkseyri og þá var Guðlaugur Pálsson vaxandi
kaupmaður hér auk fjölmargra annara smákaupmanna, svo sem J.D. Nielsen fv. verslunarstjóra
Einarshafnarverslunar, sem opnaði sölubúð í "Skjaldbreið" þetta haust og
Guðmund bóksala í Götuhúsum. Á Stokkseyri var öflugasta verslunin Kf. Ingólfur
og Egill Thorarensen í Sigtúnum var aðsópsmikill kaupmaður á Selfossi um þessar
mundir. Um mitt sumar var útflutningur allrar íslenskrar vöru gefinn frjáls á
ný af landsstjórninni, að frátöldum hrossamarkaði, er stjórnin hefði enn í
sínum höndum*. Bændur flestir afhentu ull sína kaupfélögunum og sláturfélaginu.
Markaðurinn var daufur og seinn á sér. Í einu af Heklu-húsunum var nú innréttuð
lyfjabúð (apotek), danskur maður K.C. Petersen, setti á fót, en hann seldi að
auki ýmsar aðrar vörur. Samkeppnin í verslun hér var nú harðari en nokkru sinni
fyr og stóru risarnir við ströndina byrjaðir að molna.
[*Bandamenn höfðu allt
verslunarvald íslendinga í hendi sér í stríðslok, og forkaupsrétt á allri
íslenskri vöru, svo mörg útlend skip lágu aðgerðalaus í höfnum hér við land í
lok stríðsins og vissu ekki hvert þau áttu að fara.]
Skipaferðir: Siglingar máttu aftur hefjast frá
Eyrum, þegar friður komst á, en "Vonin" seglskip Einarshafnarverslunar fylgdi
ekki með í kaupunum. Kf. Hekla hafði leigt gufuskip sem koma átti í maí
fullfermt, en þá gerðist það ólán að skipið varð fyrir vélarbilun í
Kaupmannahöfn og komst egi á kauptíðinni. Saltskip kom frá spáni til
Stokkseyrar snemma í apríl, en önnur skip komu ekki yfir kauptíð. Þegar kaupfar
kf. Heklu kom loks til Eyrarbakka, í lok ágústmánaðar, varð enn eitt ólánið uppvíst,
því vörurnar voru meira og minna skemmdar og að einhverju leyti ónýtar, eftir
langvint sjóvolk og vandræðaskap, er skipið hafði ratað í. Þann 8. september
var uppboð á Eyrarbakka og þar selt mikið af rúgmjöli og sykri. Komst mikið af
þessari vöru í ótrúlega hátt verð, stappaði nærri söluverði á óskemmdri vöru.
Um miðjan september kom loks hingað timburskip, en þar til hafði varla fengist
hér spíta í laupsrim um langan tíma.
Útgerð: Afli var ágætur hér við ströndina þá
er vertíðin hófst seint í febrúar en treg veiði í fyrstu hjá Þorlákshafnarbátum,
en síðan mokafli á köflum á öllum verstöðvum, þá er fiskur gekk nær landi en
venja var til. Sjór var hlýrri hér við ströndina en oft áður fyrri hluta
vetrar. Olíuskortur var orðinn mikill sunnanlands að áliðnu sumri og háði það
vélbátunum svo að ekki komust á sjó, en róðraskipin öfluðu vel á
haustvertíðinni.
Menning: Kvikmyndahús var sett á laggirnar
hér í Fjölni og nokkuð um pólitísk fundarhöld. Eitt hús var byggt hér,
Mikligarður sem hýsa átti verslun á komandi ári.
Sýslan: Settur sýslumaður Magnús Gíslason
tvítugur að aldri*. Flóaáveitufélagið samþykti að taka 1,5 milj. króna láa til
áveitunnar. Sparisjóður tók til starfa á Stokkseyri (okt 1918) og Landsbanki á
Selfossi.
[*Megn ágreiningur varð
á Eyrarbakka nokkru síðar út af meðferð sýslumannsembættisins í Árnessýslu.
Síðan Sigurður ÓLafsson sagði því af sjér sumarið 1915, höfðu verið hér ýmsir
sýslumenn settir. Upphaflega var Guðmundi Eggerz veitt sýslan vorið 1917, en
hann hafði oftast verið fjarverandi síðan, ýmist í R.vk (í fossanefndinni) eða
erlendis. þetta hafði héraðsbúum likað afar illa. Úr hófi keyrði haustið 1918 þegar Bogi Brynjólfsson fór frá
embætti. þá var enginn skipaður í staðinn, en einn hreppstjórinn látinn
afgreiða brýnustu erindi. Síðast kom Magnús Gíslason lögfr og rjeðist til vors,
en þá ætlaði Guðm. Eggerz að koma sjálfur. Svo varð þóekki heldur fjekk hann leyfi
stjórnarráðsins til að skipa Pál Jónsson lögfr. fulltrúa sinn. þessu gátu
hjeraðsbúar ekki unað, vildu ekki taka við Páli, en kröfðust, að sýslumaður
kæmi sjálfur eða að annar yrði skipaður á eigin ábyrgð. Stjórnarráðið skipaði
síðan þorst. þorsteinsson til að gegna embættinu á eigin ábyrgð fram á sumar.]
Andlát: Gestur Ormsson Einarshöfn, þurrabúðarmaður (87) Katrín
Hannesdóttir, húsfreyja Sandgerði (65). Guðrún Matthíasdóttir, Einarshöfn (52),
Jón Stefánsson, Brennu (45). Tómas Þórðarsson, þurrabúðarmaður Sandvík (44). Helgi Ólafsson, prests frá Stóra-Hrauni,
druknaði í Hólsós í Ölfusi, var sjómaður (23). Júlía Guðrún Ísaksdóttir,
Ísaksbæ (23). Ísleifur Haraldsson, Merkisteini (ungabarn).
Tíðin: Tíðafarið var misgott í byrjun árs.
Ofsaveður gerði um miðjan mars og allmikið snjóaði. Sumarfuglar, spóar, lóur og stelkar,
voru komnir fyrir pálmasunnudag, og flugu syngjandi um túnin og móana, en þá
brast á snjór og kuldahret. Í júlí snjóaði í sunnlensk fjöll, um stund hlýtt
mjög, en óþurkar yfirleitt þar til seint í ágúst. Veturinn ágætur og fénaður
gekk úti fram í desember, en eitt óveður gerði þann mánuð.
Samgöngur: Bílferðir voru tvisvar í viku milli
Eyrarbakka og Reykjavíkur, en um það sáu þeir Gunnar Ólafsson og Erling
Aspelund, en síðan hóf fólksflutninga Steingrímur Gunnarsson hér á Eyrarbakka.
Hagtölur: Erlend Kol og sykur lækkaði mikið í
verði eftir stríð*. Dagsbrúnarkaup var 90 aurar á rúmhelgum dögum, dagvinnu kaup
hjá Drífanda í Vestm. var 1,15 á klst. Steinolía var 300% dýrari en árið 1914. Á
Eyrarbakka hafði smjörverð lækkað og kostaði kr. 2,85 pundið, þurrabúðarmönnum
til góða. Laxpundið kostaði
90 aura til útsölumanna. Sparisjóður Árnessýslu átti 1.777.136 kr. sem var
mikið fé. Verð á saltfiski til útfluttnings var afar hátt, en sveitavörur fóru
lækkandi.
[*Landsstjórnin tók í sínar hendur einokun á alla verslun með
erlend kol og kornvörur hér á landi. Kolaverslun öll var í höndum breta og
olíuna áttu gróðabrallarar]
Ýmislegt: Vinnuvélar sáu dagsins ljós hér í
Flóanum, þegar skurðgrafa kom til Skeiða-
og Flóa áveitanna, heljarmikið bákn,
Dráttvélar (traktorar) tvær, með 20 hesta afli. Grjótkvörn á hjólum til
vegagerðar, valtari, til þess að þjappa mulningnum ofan í vegi, og trukkur, til
þess gerður að flytja möl. Kf. Hekla hafði símanúmer 8. Vörubifreiðar voru að
taka við af hestvögnum. Fyrsta flugvélin keypt til landsins.
Heimild: Skeggi 1919, Þjóðólfur1919, mbl.1919,eyrarbakki.is,
gardur.is, brim123.is.